Líkt og íslenskir neytendur fengu að kynnast árið 2020 er hægt að kaupa gullstangir í Costco en bandarískir neytendur hafa verið að sækjast í slíkar stangir eins og heitar lummur enda gullverð í hæstu hæðum.
Samkvæmt greiningardeild bandaríska bankans Wells Fargo selur Costco gull fyrir um 200 milljónir Bandaríkjadala mánaðarlega en það samsvarar um 28 milljörðum króna.
The Wall Street Journal greinir þó frá því að gullkaupendur í Costco, sem hafa verið á höttunum eftir skjótfengnum gróða, séu nú að uppgötva að gull sé ekki sérlega handbær eign.
Adam XI, einn viðmælanda WSJ, greinir frá því að hann hafi keypt gullstöng á 2000 dali í október í fyrra og ætlað sér að selja hana nokkrum vikum síðar. Markmiðið með viðskiptunum hafi verið að græða örlítið á hærra gullverði og fá töluvert af vildarpunktum á kreditkortið sitt fyrir viðskiptin.
Nokkrum vikum síðar er Adam fór að hitta gullkaupendur voru tilboð í stöngina allt að 200 dölum lægri en kostnaðarverðið sem samsvarar um 28 þúsund króna tapi á viðskiptunum.
Gullkaupendur í New York borg sem WSJ ræddi við segja að það sé venja að bjóða allt að 5% lægra verð en gangverð á gulli í hefðbundnar gullstangir líkt og seldar eru í Costco. Þeir segja jafnframt að engum myndi detta í hug að kaupa gullstöng úr Costco á markaðsverði á gulli. Únsan af gulli stendur í 2,387 dölum um þessar mundir.
„Þetta er ekki eins og að kaupa og selja hlutabréf,“ segir Lark Mason, matsmaður á eðalmálma í New York. „Það er núningur milli þess sem þú borgar og hvað þú getur fengið fyrir vöruna,“ bætir hann við.
The Wall Street Journal bendir á að gull sé ágætis eign til lengri tíma sérstaklega þegar verðbólga er há og óróleiki mikill í hagkerfinu.
Verð á gulli hefur hækkað um 15% á árinu og segja gullkaupendur við WSJ að fjölmargir séu að mæta í skartgripaverslanir og á fleiri staði í von um að selja Costco stangirnar sínar.