Líkt og ís­lenskir neyt­endur fengu að kynnast árið 2020 er hægt að kaupa gull­stangir í Costco en banda­rískir neyt­endur hafa verið að sækjast í slíkar stangir eins og heitar lummur enda gull­verð í hæstu hæðum.

Sam­kvæmt greiningar­deild banda­ríska bankans Wells Far­go selur Costco gull fyrir um 200 milljónir Banda­ríkja­dala mánaðar­lega en það sam­svarar um 28 milljörðum króna.

The Wall Street Journal greinir þó frá því að gull­kaup­endur í Costco, sem hafa verið á höttunum eftir skjótfengnum gróða, séu nú að uppgötva að gull sé ekki sér­lega hand­bær eign.

Adam XI, einn við­mælanda WSJ, greinir frá því að hann hafi keypt gull­stöng á 2000 dali í októ­ber í fyrra og ætlað sér að selja hana nokkrum vikum síðar. Mark­miðið með við­skiptunum hafi verið að græða ör­lítið á hærra gull­verði og fá tölu­vert af vildar­punktum á kredit­kortið sitt fyrir við­skiptin.

Nokkrum vikum síðar er Adam fór að hitta gull­kaup­endur voru til­boð í stöngina allt að 200 dölum lægri en kostnaðar­verðið sem sam­svarar um 28 þúsund króna tapi á við­skiptunum.

Gull­kaup­endur í New York borg sem WSJ ræddi við segja að það sé venja að bjóða allt að 5% lægra verð en gang­verð á gulli í hefð­bundnar gull­stangir líkt og seldar eru í Costco. Þeir segja jafn­framt að engum myndi detta í hug að kaupa gull­stöng úr Costco á markaðs­verði á gulli. Únsan af gulli stendur í 2,387 dölum um þessar mundir.

„Þetta er ekki eins og að kaupa og selja hluta­bréf,“ segir Lark Mason, mats­maður á eðal­málma í New York. „Það er núningur milli þess sem þú borgar og hvað þú getur fengið fyrir vöruna,“ bætir hann við.

The Wall Street Journal bendir á að gull sé á­gætis eign til lengri tíma sér­stak­lega þegar verð­bólga er há og ó­ró­leiki mikill í hag­kerfinu.

Verð á gulli hefur hækkað um 15% á árinu og segja gull­kaup­endur við WSJ að fjöl­margir séu að mæta í skart­gripa­verslanir og á fleiri staði í von um að selja Costco stangirnar sínar.