Hlutabréf Country Garden Holdings hækkuðu á ný í Hong Kong eftir níu mánaða rýrnun. Samkvæmt WSJ hefur kínverski fasteignarisinn lofað að ná samkomulagi um endurskipulagningu skulda við kröfuhafa.

Gengi fyrirtækisins, sem var eitt sinn það stærsta sinnar tegundar í Kína, hækkaði um 30% í dag. Þá fékk félagið einnig hjálp frá hækkun Hang Seng Mainland Properties, sem hækkaði um 2,2%.

Viðskipti með hlutabréf Country Garden hófust þá á ný eftir að fyrirtækið sagði að það hefði uppfyllt allar nauðsynlegar kröfur varðandi endurskipulagningu. Fyrirtækið birti þá uppgjör sitt í síðustu viku sem greindi frá 1,75 milljarða dala tapi á fyrri hluta 2024.

Country Garden hefur einnig lagt fram ýmsar áætlanir og ráðstafanir til að bæta fjárhagsstöðu sína. Meðal ráðstafana er að semja við skuldabréfaeigendur til að framlengja gjalddaga en það samkomulag hljóðar upp á 2,46 milljarða dala.

Við réttarhöld í Hong Kong í gær sagði félagið að það myndi búast við að ná samkomulagi við kröfuhafa í næsta mánuði. Þá hafa kínversk stjórnvöld einnig komið markaðnum til aðstoðar með því að takmarka íbúðakaup, lækka húsnæðislán og veita meiri aðgang að lánum.