Markaðsvirði nokkurra lyfjafyrirtækja sem framleiddu bóluefni gegn Covid-19 veirunni hefur lækkað umtalsvert á síðustu árum, eftir að hafa rokið upp í heimsfaraldrinum vegna væntinga um mikinn vöxt í tengslum við bóluefnin.
Gengi hlutabréfa Pfizer, Moderna og Biontech hafa fallið um 58%, 92% og 74% hver um sig frá hæstu hæðum í faraldrinum, samkvæmt umfjöllun danska viðskiptamiðilsins Børsen.
Bent er á að hlutabréfaverð bandaríska líftæknifyrirtækisins Novavax, sem þróaði Nuvaxovid bóluefnið gegn Covid, fór hæst í 290 dali árið 2021 en stendur nú í 7 dölum. Það samsvarar 97% lækkun frá því að gengi félagsins var í hæstu hæðum.
„Hlutabréfaverð er besti mælikvarðinn á væntingum [fjárfesta]. Það var einmitt það sem gerðist í kórónuveirufaraldrinum. Skyndilega þurfti að framleiða bóluefni fyrir allan heiminn. Á þeim tíma vissi enginn hvenær faraldrinum myndi ljúka,“ er haft eftir sérfræðingi á fjárfestingarsviði hjá Arthascope, Lars Hytting.
Hann kýs að líkja verðhækkun hlutabréfa lyfjafyrirtækjanna ekki við bólu en segir þó ljóst að virði félaganna hafa verið hressilega blásið upp.