Svissneski bankinn Credit Suisse hefur óskað eftir stuðningsyfirlýsingu frá Seðlabanka Sviss eftir meira en 15% lækkun á hlutabréfaverði bankans í dag, samkvæmt heimildum Financial Times.
Credit Suisse vonast til að seðlabankinn lýsi yfir að fjárhagsstaða bankans sé traust. Þá hefur Credit Suisse einnig óskað eftir sambærilegum stuðningi frá Finma, fjármálaeftirliti Sviss. Hvorug stofnun hefur tekið ákvörðun um hvort þær muni grípa inn í.
„Það lítur út fyrir að það sé óhjákvæmilegt að svissneski seðlabankinn neyðist til að grípa inn í og veita líflínu,“ hefur FT eftir greinanda hjá Opimas. „Seðlabankinn og svissnesk stjórnvöld eru meðvituð um að fall Credit Suisse og jafnvel bara tap hjá innstæðueigendum myndi eyðileggja orðspor Sviss sem fjármálamiðstöð.“
Seðlabanki Evrópu hefur kallað eftir upplýsingum frá evrópskum lánveitendum um fjárhagslega áhættu þeirra tengda Credit Suisse, samkvæmt heimildarmanni FT. Umræður voru innan Seðlabanka Evrópu um að bankinn sendi frá sér tilkynningu vegna svissneska bankans. Enn sem komið er hafa forráðamenn seðlabankans ákveðið að tjá sig ekki opinberlega um stöðuna vegna ótta um að það gæti leitt til frekari óróa a markaðnum.
Markaðsvirði Credit Sviss fór um tíma undir 7 milljarða franka í dag en til samanburðar lauk bankinn 4 milljarða franka fjármögnun fyrir örfáum mánuðum. Hlutabréfaverð bankans endaði daginn í 1,70 frönkum á hlut en dagslokagengi hans hefur aldrei verið lægra.
Lækkun á hlutabréfaverði Credit Suisse hefur m.a. verið rakinn til óróa í bankageiranum í kjölfar falls Silicon Valley Bank og Signature Bank í Bandaríkjunum ásamt því að stjórnarformaður Saudi National Bank, stærsta hluthafa Credit Suisse, lýsti því yfir að hann hyggist ekki veita svissneska bankanum frekari fjárhagsaðstoð eftir að hafa keypt 10% hlut í fyrra.