Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur undirritað samning við Tianying Group en kínverska félagið mun nýta tækni CRI til framleiðslu í einni stærstu rafeldsneytisverksmiðju heims.
Tæknin sem CRI hefur þróað endurnýtir koltvísýring til framleiðslu á grænu metanóli.
Verksmiðjan verður staðsett í Liaoyuan í Kína en VRI var fyrsta fyrirtækið til að framleiða rafmetanól fyrir rúmum áratug síðan í verksmiðju félagsins í Svartsengi.
Verksmiðjan í Liaoyuan er sú þriðja í Kína sem nýtir tækni CRI, en hinar tvær voru gangsettar á árunum 2022 og 2023.
Stefnt er að því að gangsetja verksmiðjuna í lok árs 2025 og verður hún með framleiðslugetu upp á 170 þúsund tonn af rafmetanóli á ári.
„Verkefnið sker sig frá fyrri verkefnum félagsins þar sem að þessu sinni verður vindorka nýtt til framleiðslu á grænu vetni sem hráefni í framleiðsluna. Rafmetanólið sem framleitt verður getur því uppfyllt ströngustu skilyrði um sjálfbærni og kolefnisfótspor, svo sem reglur Evrópusambandsins um rafeldsneyti. Gert er ráð fyrir að metanólið muni nýtast meðal annars til orkuskipta í skipaflutningum,“ segir í fréttatilkynningu frá CRI.
Í verkefninu mun CRI sjá um hönnun og þjónustu tengda rafmetanólframleiðslunni. Félagið mun einnig afhenda búnað til verkefnisins, hvarfakút og hvata. CRI aðstoðar einnig við gangsetningu verksmiðjunnar og samþættingu metanólhlutans við aðra þætti verkefnisins.
„Við hlökkum til samstarfsins við Tianying í þessu tímamótaverkefni. Tækni CRI gegnir lykilhlutverki í sjálfbærri orkuframleiðslu en verkefnið er afar þýðingarmikið fyrir iðnaðinn. Saman eru félögin að setja ný viðmið í framleiðslu á grænum orkugjöfum og efnavöru”, segir Lotte Rosenberg, forstjóri CRI.
„Við erum spennt fyrir því að vinna með CRI að þessu framsækna verkefni. Samningurinn undirstrikar skuldbindingu Tianying við að stuðla að nýsköpun og sjálfbærni. Framleiðsla á grænu metanóli mun gegna lykilhlutverki í að draga úr kolefnislosun í efna- og eldsneytisiðnaðinum. Við erum mjög stolt af því að vísa veginn,” segir Dan Han, Deputy General Engineer hjá Tianying Group.