Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún kanni og leggi mat á stjórnsýslulega framkvæmd og úrvinnslu ráðuneytisins vegna verklags í tengslum við greiðslu framlaga til stjórnmálasamtaka „eftir að ljóst varð um ágalla á framkvæmd greiðslna“.
Þetta kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins.
Skatturinn veiti „ónákvæmar“ upplýsingar
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að það hafi uppfært fyrri tilkynningu sína um málið eftir að erindi barst frá Skattinum um að upplýsingar sem embættið lét ráðuneytinu í té hafi verið ónákvæmar þegar tilgreint var hvenær stjórnmálaflokkar hefðu skráð sig á stjórnmálasamtakaskrá.
„Fram kemur að þær dagsetningar sem Skatturinn lét ráðuneytinu í té voru mótttökudagsetningar skráningar.“
Fjármálaráðuneytið tilkynnti þann 7. febrúar síðastliðinn að stjórnmálaflokkar sem hefðu þegið styrk þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði laga yrðu ekki krafin um endurgreiðslu fjárframlaga.
Ráðuneytið sagði framlögin lið í að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði. Krafa um endurgreiðslu myndi, að því er segir í tilkynningunni, kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfsemi hlutaðeigandi samtaka, þvert gegn markmiðum laganna.
„Um var að ræða misbrest í verklagi við úthlutun framlaga og bæði stjórnvöld og viðkomandi stjórnmálasamtök stóðu í þeirri trú að lagalegur réttur stæði til fjárframlaganna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan misbrest hefði ráðuneytið haft tilefni til að leiðbeina stjórnmálasamtökum um skráningu, áður en fé var fyrst úthlutað úr ríkissjóði eftir lögfestingu skilyrðisins,“ segir í umræddri tilkynningu frá 7. febrúar sl.
„Loks mælir það gegn endurkröfurétti að lögin hafi verið framkvæmd á þessa vegu um nokkurt skeið og viðtakendur greiðslnanna hagað starfsemi sinni til samræmis við þá trú að framlögin væru lögmæt og endanleg.“