Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun halda opinn fund næstkomandi mánudag til að fjalla um ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um að krefjast ekki endurgreiðslu framlaga til stjórnmálasamtaka. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra verður til svara á fundinum, sem er opinn öllum og verður streymt á vefsíðu Alþingis.

Tilkynnt var fyrr í vikunni að fjármálaráðherra hafi farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún kanni og leggi mat á stjórnsýslulega framkvæmd og úrvinnslu ráðuneytisins vegna verklags í tengslum við málið.

Greint var frá því í byrjun mánaðar að fjármála- og efnahagsráðuneytið myndi ekki krefja flokka sem voru ekki skráðir sem stjórnmálasamtök um endurgreiðslu framlaga frá ríkinu. Hafði þá verið greint frá því að Flokkur fólksins hafi þegið alls 240 milljónir króna í styrk, þrátt fyrir að hafa verið skráður sem félagasamtök en ekki stjórnmálasamtök líkt og lög kveða á um.

Fjármálaráðuneytið sagðist hafa brugðist leiðbeiningar­skyldu gagn­vart stjórn­mála­samtökum við út­hlutun fjár­muna og að óheimilt væri að aftur­kalla ákvarðanir eða krefjast endur­greiðslu.

Skilyrði umskráningu í stjórnmálasamtakaskrá var bætt við lögin árið 2022 og voru framlög greidd í janúar 2022-2025. Fleiri flokkar uppfylltu ekki skilyrðin árið 2022 en breyttu flest skráningu skömmu eftir breytinguna. Sósíalistaflokkurinn breytti þó ekki skráningu fyrr en í nóvemner 2023 og Vinstri græn ekki fyrr en í september 2024. Flokkur flokksins var enn skráður sem félagasamtök þegar málið kom upp.

Viðbrögðin við fyrri ákvörðun ráðherrans voru misjöfn. Arnar Þór Stefáns­son, hæstaréttar­lög­maður hjá LEX, sagði til að mynda í samtali við Viðskiptablaðið að ríkið ætti skýra endur­greiðslu­kröfu á stjórn­mála­flokka sem upp­fylltu ekki skil­yrði um skráningu í stjórn­mála­sam­taka­skrá en fengu engu síðar styrki frá ríkis­sjóði. Taldi hann að utanaðkomandi álit sem ráðuneytið aflaði sér fyrir ákvörðunina stæðist ekki skoðun en skýrar laga­reglur um ábyrgð viðtak­enda fjárins hafi þar verið snið­gengnar.