Í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, frá íbúðauppbyggingu sem nú er komin á fullt í bæjarfélaginu . Sagði hún m.a. frá því að áætlanir bæjaryfirvalda í Hafnarfirði geri ráð fyrir að íbúum muni fjölga um fjórðung á næstu fjórum árum, en um 30 þúsund manns búa í dag í Hafnarfirði.
Auk þess sem íbúðauppbygging er á fullri ferð í Hafnarfirði hefur bæjarfélagið stóraukið sölu á atvinnulóðum. Til marks um það fjórfaldaðist salan á slíkum lóðum milli áranna 2020 og 2021 og hafa alls sjötíu atvinnulóðir selst undanfarin fjögur ár. Af lóðunum sjötíu seldust 47 þeirra á síðasta ári. Rósa segir flestar lóðanna vera á helsta atvinnuuppbyggingarsvæði bæjarins, Hellnahrauni. Vænta megi þess að a.m.k. sami fjöldi atvinnulóða muni skila sér út á markaðinn á þessu ári. Hún segir bæjaryfirvöld hafa skynjað mikinn áhuga meðal fyrirtækja á lóðum í Hafnarfirði og því hafi verið ákveðið að skipuleggja fimmtíu lóðir til viðbótar undir atvinnustarfsemi. Stefnt sé á að lóðirnar verði tilbúnar til úthlutunar á næstu vikum. Þegar allt sé saman tekið verði því á árunum 2018 til 2022 yfir 600 þúsund fermetrum ráðstafað til atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu.
„Markmið núverandi meirihluta er að laða öflug fyrirtæki til Hafnarfjarðar þannig að umsvif í bæjarfélaginu aukist og ný störf skapist. Fyrirtækin hafa áhuga á að setjast að í Hafnarfirði vegna þess að bærinn býður upp á umhverfi sem fer vel saman með þörfum atvinnulífsins."
Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .