Sigur­geir B. Krist­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri Vinnslu­stöðvarinnar, segir Viðreisnar­manninn Þor­stein Páls­son hafa farið með rangt mál sem álits­gjafi í þætti á Stöð 2 fyrir stuttu og rekur ofan í Þor­stein hans eigin orð úr fyrri störfum.

Þor­steinn sagði þar meðal annars að „Verka­kona í frysti­húsi þarf að borga þre­falt hærri vexti af íbúðinni sinni en eig­andi frysti­hússins þegar hann fjár­festir“ en til um­mælanna hefur víða verið vitnað.

„En hvert skyldi nú sann­leiks­gildi þessara orða vera? Um það get ég upp­lýst Þor­stein og þá sem hafa áhuga á að kynna sér sann­leikann.

  • Í fyrsta lagi verða vextir Vinnslu­stöðvarinnar á yfir­standandi ári af er­lendum lánum (aðal­lega evrum) ríf­lega 8%.
  • Í öðru lagi verða vextir er­lendra lána (aðal­lega dollara) í fisk­vinnslu í Eyjum sem ég þekki til um 11%.
  • Í þriðja lagi verða vextir dóttur­félags Vinnslu­stöðvarinnar í Portúgal af lánum þess í ár um 6%, en lánin eru öll í evrum.
  • Í fjórða lagi eru óverð­tryggðir vextir nákomins ættingja míns lið­lega 8% af húsnæðisláni í ís­lenskum krónum.

Dæmi nú hver fyrir sig um sann­leiks­gildi orða Þor­steins Páls­sonar. Þess ber að geta að er­lend lán Vinnslu­stöðvarinnar og fisk­vinnslunnar í Eyjum eru tekin hjá ís­lenskum bönkum,“ skrifar Sigur­geir í að­sendri grein á Vísi.

Sigur­geir segir að þar sem Þor­steinn er fyrr­verandi fjár­málaráðherra Ís­lands verði að gera meiri kröfur til hans í þessum efnum.

„Þor­steinn þekkir nægjan­lega marga í Eyjum eða innan sjávarút­vegsins til að taka eitt eða fleiri símtöl til að átta sig á aðstæðum dagsins í dag. Hann þekkir áreiðan­lega einnig vel til innan banka­kerfisins og hefði hæg­lega getað aflað sér upp­lýsinga,“ segir Sigur­geir.

Sigur­geir vitnar máli sínu til stuðnings í ný­lega grein Bene­dikts Gísla­sonar, banka­stjóra Arion banka, en þar lýsir hann hvernig reglu­verk og skatt­lagning hefur áhrif á vaxta­kjör ís­lenskra fyrir­tækja og heimila.

„Þar lýsir hann því af hvaða ástæðu dóttur­félag Vinnslu­stöðvarinnar í Portúgal greiðir lægri vexti í evrum en móðurfélagið á Ís­landi, sem er þó á ábyrgð fyrir megninu af lánum dóttur­félagsins, en þessar eru þær helstar:

  • Vegna hærri eigin­fjárkrafna til banka­kerfisins.
  • Vegna hærri skatta á ís­lenska banka.
  • Vegna hærri óvaxta­berandi bindi­s.
  • Vegna annarra álaga og íþyngjandi reglna ís­lenskra stjórn­valda sem rakin eru í greininni.

Ein ástæðan er lakara láns­hæfis­mat bankanna sem er af­leiðing neikvæðrar um­ræðu stjórn­mála­manna um banka­kerfið, auk annarra at­riða.”

Sigur­geir bendir á að með milli­liða­lausum við­skiptum við er­lenda banka megi komast hjá ís­lenska álaginu sem Bene­dikt nefnir.

Af­leiðingar þess eru að við veikjum ís­lenska banka­kerfið (sam­keppnis­hæfni þess minnkar), tekjur verða minni, bankamönnum fækkar, skattar til ríkis og sveitarfélaga lækka.

„Við búum til spíral sem aftur leiðir til þess að vaxtaálög hækka (vegna óhag­kvæmni) og líf­skjör okkar versna. Af þessu leiðir svo að verðmæti bankanna lækkar og hlut­hafar þeirra tapa, þar á meðal ís­lenska ríkið sem á stóran hlut í banka­kerfinu!“ skrifar Sigur­geir.

Sigur­geir minnist þess þegar Þor­steinn var þing­maður Suður­kjör­dæmis á árunum 1983 - 1999. Á þessum tíma kom hann oft til Eyja og hitti þar bæði fisk­verka­fólk sem og út­vegs­bændur.

„Hann þekkti vel til stöðu sjávarút­vegs enda var hann lengi sjávarút­vegs­ráðherra,“ skrifar Sigur­geir sem segir ljóst að Þor­steinn hafi alveg misst tenginguna við fólkið sem hann talar um.

„Viðreisnar­maðurinn, Þor­steinn Páls­son, hefur hvorki heimsótt fisk­verka­konur né út­vegs­bændur í Eyjum í tæpan ára­tug, svo ég viti til, til að kynna sér stöðu þeirra. Þá hefði hann nefni­lega áttað sig á að fisk­verka­konurnar eru frá Evrópu, einkum Portúgal og Póllandi. (Í Póllandi er ekki evra. Grunn­vextir í Póllandi hafa verið svipaðir og á evru, en þó ívið hærri.) Þær eru ekki heima hjá sér til að njóta lágra vaxta í þeim löndum eða eru í Eyjum vegna veður­blíðu, heldur vegna hárra launa og mögu­leika á at­vinnu. Laun evrópsku kvennanna í Eyjum eru nú með þeim hæstu sem þær eiga kost á innan evrópska efna­hags­svæðisins. Laun fisk­vinnslufólks í nokkrum löndum Evrópu­sam­bandsins sem við þekkjum til eru á bilinu 7 – 15 evrur á tímann.”

Sigur­geir bendir á að til viðbótar bætist launa­tengdir skattar og önnur gjöld. Kostnaður evrópsks fisk­vinnslu­fyrir­tækis á unnum tíma er þá á bilinu 10 – 20 evrur. Sam­bæri­legur kostnaður Vinnslu­stöðvarinnar er rúm­lega 30 evrur á klukku­stundina.

„Eftir þessu sækist evrópska fisk­vinnslufólkið og þess vegna er það á Ís­landi en ekki heima hjá sér að njóta lágra vaxta.“

Sigur­geir rifjar upp skrif Þor­steins frá árinu 2009 en þar sagði Þor­steinn að „krafan um að há­marka arðinn af auðlindinni í þágu heildarinnar er eitt af mikilvægustu viðfangs­efnum stjórn­málanna. Spurningin er bara: Hvernig? Hag­ræðingin styrkir krónuna sem aftur bætir kjör al­mennings. Þetta lög­mál virkar líka í hina áttina. Vilja menn það?“

„Hér er ein­mitt kjarni málsins. Hag­ræðing innan sjávarút­vegsins hefur styrkt krónuna og bætt kjör al­mennings, eða viljum við fara í hina áttina eins og Þor­steinn lýsir svo vel? Sjávarút­vegurinn hefur getu til að til að greiða há laun eins og ég hef lýst, verið arðs­samur og staðið undir byggð víðs vegar um landið eins og Þor­steinn lýsti í annarri grein sem hann birti árið 2009 undir fyrir­sögninni: Markaðs­lausnir í sjávarút­vegi:

„Þetta kerfi hefur leitt til þess að við eigum nú færri en stærri og sterkari sjávarút­vegs­fyrir­tæki en áður. Þau geta flest jafnað inn­byrðis sveiflur í veiði og markaðsverði á ákveðnum tegundum. Við stöðug efna­hags­skil­yrði skila þau arði sem nýtist til fjár­festinga og at­vinnu­sköpunar á öðrum sviðum. Að sama skapi eflast bæjarfélögin.“

Ein­mitt þetta hefur gerst í Eyjum þar sem fyrrum eig­endur út­gerðar hafa ráðist í stærstu einstöku fjár­festingu Eyjanna frá upp­hafi byggðar þar,” skrifar Sigur­geir.

Þá minnir Sigur­geir Þor­stein á að hann sé ekki lengur í for­svari fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn heldur Viðreisn og hefur sá flokkur ein­mitt talað fyrir upp­boðum og fyrningu afla­heimilda.

„Það var mér einkar ánægju­legt að sjá svar hans við þeim hug­myndum og Sam­fylkingarinnar sem hann birti í grein sinni árið 2011 og heitir Að­gangs­orð pólitískra vinsælda. Þar segir meðal annars:

„Fyrir­tæki sem missa veiði­heimildir [vegna fyrningar] standa uppi með óbreytta fjár­festingu og minni tekjur. Sá mikli fjöldi nýliða sem bætist við þarf að fjár­festa í skipum og fisk­vinnslu­húsum án þess að fá nægjan­legar tekjur. Bæði ný og gömul fyrir­tæki þurfa síðan að standa undir hærra auðlinda­gjaldi.“

Við skulum láta þessi orð sjálf­stæðis­mannsins Þor­steins Páls­sonar vera loka­orð við svar­grein mína til viðreisnar­mannsins Þor­steins Páls­sonar. Eins og ég þekki manninn Þor­stein Páls­son þá veit hann í hjarta sínu hvor maðurinn hefur rétt fyrir sér. Hann var áður þeim vanda vaxinn að segja satt,” skrifar Sigurgeir að lokum.