Fyrir nokkrum misserum hóf vefmiðillinn Mannlíf, sem haldið er úti af útgáfufélaginu Sólartúni ehf, að skrifa reglulega fréttir upp úr minningargreinum, sem birtust í Morgunblaðinu.

Í október 2021 birtist ein slík upp úr minningargrein, sem Atli Viðar Þorsteinsson hafði skrifað um bróður sinn. Atli Viðar höfðaði í kjölfarið mál, sem og Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins.

Í morgun voru dómar í málunum tveimur kveðnir upp í Héraðsdómi Reykjaness. Dómarnir hafa ekki verið birtir en Mbl greinir frá því að Reyni Traustasyni og útgáfufélaginu Sólartúni ehf. sé gert að greiða Atla Viðari 300 þúsund krónur auk dráttarvaxta í bætur vegna skrifa Mannlífs upp úr minningargrein hans. Þá þurfa Reynir og Sólartún að greiða Morgunblaðinu 50 þúsund krónur í bætur, auk dráttarvaxta.

Reynir og Sólartún þurfa einnig að greiða eina milljón króna í málskostnað. Ennfremur skulu dómsorðin verða birt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.