Stjórn PHUT ehf., sem rekur veitingastaðinn Pizza Hut í Staðarbergi í Hafnarfirði, samþykkti í ársbyrjun að ganga til samruna við KFC ehf.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins en KFC ehf. rekur skyndibitastaðina KFC og Taco Bell sem eru undir sama vörumerkjaeiganda og Pizza Hut.
Helgi Vilhjálmsson kenndur við Góu á KFC ehf. en félagið PHUT ehf. er í jafnri eigu þriggja dætra hans.
Ingunn, Kristín og Rut Helgadætur eiga allar 33,3% hlut í PHUT ehf. en Helgi sjálfur á 0,01% í félaginu.
Taprekstur og skuldir
Taprekstur hefur verið á Pizza Hut á Íslandi. Félagið tapaði 38 milljónum króna í fyrra. Skammtímaskuldir félagsins eru 160 milljónir króna á meðan bókfært eigið fé félagsins í árslok var neikvætt um 110 milljónir samkvæmt efnahagsreikningi.
Félagið seldi vörur fyrir 112 milljónir í fyrra sem var lækkun úr 195 milljónum á milli ára. Þá helmingaðist handbært fé félagsins frá ársbyrjun til ársloka 2022 og fór úr 24 milljónum í 12 milljónir.
Á sama tíma var 415 milljóna króna hagnaður af rekstri skyndibitakeðjunnar KFC á Íslandi sem var hækkun úr 350 milljónum árið áður.