Ásdís Kristjánsdóttir segir að til að skapa forskot þurfi hið opinbera að hafa tækifæri til að vera rekið með skynsömum og hagkvæmum hætti. Hægt sé að breyta stöðunni, draga úr sóun og spara fjármuni skattgreiðenda. Byrja þurfi á jöfnun réttinda en einnig þurfi að draga úr regluverkafargi. Hún segir hindranir vera víða og dag frá degi sé hún að brjóta sér leið gegnum hurðar sem ættu að standa opnar.

Ásdís Kristjánsdóttir ákvað fyrir þremur árum að venda kvæði sínu í kross og sagði skilið við almenna vinnumarkaðinn til að ganga stjórnmálunum á hönd. Í byrjun árs 2022 sóttist hún eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og sigraði í prófkjörinu. Í sveitarstjórnarkosningunum í maí sama ár hélt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta sínum og í kjölfarið varð Ásdís bæjarstjóri.

Áður en Ásdís fór í pólitíkina hafði hún starfað hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) í átta ár. Fyrst sem for­stöðu­maður efna­hags­sviðs samtakanna en síðan sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Áður en hún fór til SA hafði hún meðal annars verið forstöðumaður greiningardeildar Arion banka og unnið sem hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu. Ásdís er með háskólagráður í iðnaðarverkfræði og hagfræði, hefur því ansi víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi.

Rökrétt skref

Spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að fara í stjórnmálin svarar Ásdís: „Þrátt fyrir að hafa ekki tekið virkan þátt í pólitísku starfi hef ég alltaf haft áhuga á pólitík. Ég hef skoðanir á því hvernig ég vil að samfélagið okkar þróist og hvert hlutverk ríkis og sveitarfélaga sé í þeim efnum. Það frábæra við starfið mitt í dag er að ég get með beinum hætti komið þeirri sýn áleiðis.

Eftir að hafa unnið í 20 ár í einkageiranum við greiningar á sviði hins opinbera má segja að þetta skref hafi verið rökrétt. Það var hins vegar ekki endilega planið og fyrirvarinn var ekki langur, en eftir stutt samráð við fjölskyldu og vini var ákvörðun tekin á innan við viku.“

Í einkageiranum eru ákvarðanir teknar og þær komnar í framkvæmd nánast samdægurs en í opinbera geiranum eru flest ferli bæði í senn stífari og flóknar.

Opinbera kerfið er allt annað „dýr“

Ásdís segir það hafa verið mikla breytingu að fara úr einkageiranum, almenna vinnumarkaðnum, yfir í opinbera geirann.

Opinbera kerfið er allt annað „dýr“ en hið almenna ef svo má segja mun þyngra í vöfum, flækjustigið mikið og kæruferlar langir samhliða því sem lagaumhverfið getur oft sett starfinu sérstaklega hamlandi skorður,“ segir hún.

„Í einkageiranum eru ákvarðanir teknar og þær komnar í framkvæmd nánast samdægurs en í opinbera geiranum eru flest ferli bæði í senn stífari og flóknar. Það er hins vegar ekki við starfsfólkið að sakast í þeim efnum því það sem kom mér skemmtilega á óvart hjá Kópavogsbæ, verandi stórt sveitarfélag, var hvað boðleiðir eru stuttar. Þá er ég einnig lánsöm að vera með öflugt framkvæmdastjórateymi sem er reiðbúið að hlaupa hratt með bæjarstjóranum.“

Ásdís segir að ósveigjanleiki í opinbera kerfinu komi beint niður á skilvirkni í þjónustu.
Ásdís segir að ósveigjanleiki í opinbera kerfinu komi beint niður á skilvirkni í þjónustu.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Opinber rekstur oft óskilvirkari

Spurð hver sé helsti munurinn á einkageiranum og þeim opinbera svarar Ásdís: „Megin skýringuna á því að opinber rekstur er oft óskilvirkari er að finna í því að opinberi vinnumarkaðurinn er mun ósveigjanlegri en hinn almenni. Er þetta m.a. vegna stífrar launasetningar, þar sem starfsmenn eru bundnir í ákveðin hólf en á sama tíma eru íþyngjandi verndarákvæði og réttindi sem opinberir starfsmenn njóta umfram almenna vinnumarkaðinn.

Rætur þess má rekja til laga um opinbera starfsmenn sem samþykkt voru fyrir um 30 árum þegar talið var mikilvægt að verja þá fyrir afskiptum stjórnmálamanna. Verkefni hins opinbera hafa hins vegar breyst og eru umfangsmeiri samfara því sem óverulegur launamunur ríkir í dag á milli hins opinbera og almenna vinnumarkaðar.

Þessi ósveigjanleiki kemur beint niður á skilvirkni í þjónustu og framþróun í starfi, skýrasta dæmi þess er að almennt er lítið svigrúm til að umbuna starfsfólki sem þykir skara fram í starfi hjá hinu opinbera.“

Ánægja meðal íbúa

Kópavogur er stórt sveitarfélag, hvernig hefur þér gengið að framfylgja áherslumálum meirihlutans?

„Okkur hefur gengið vel að framfylgja pólitískri stefnu okkar enda er skýrt í okkar meirihlutasáttmála hverjar áherslurnar og verkefnin eru. Meirihlutinn hefur verið mjög samstíga í að vinna eftir þeim. Þá skiptir máli að vera með öflugt stjórnendateymi þar sem boðleiðir eru stuttar og allir leggjast á eitt að framfylgja lýðræðislegu umboði bæjarstjórnar og koma áherslum áfram, líkt og er í Kópavogi í dag.

Við finnum fyrir almennri ánægju meðal íbúa með okkar stefnumál og framkvæmd þeirra. Bæjarbúar finna mun á því að fasteignaskattar eru að lækka ár frá ári, leikskólar okkur eru að veita betri þjónustu, sorpið er hirt og götur mokaðar.“

Ásdís hefur verið bæjarstjóri síðan í byrjun sumars 2022.
Ásdís hefur verið bæjarstjóri síðan í byrjun sumars 2022.
© Höskuldur Marselíusarson (Höskuldur Marselíusarson)

Skilvirkur rekstur og agi í fjármálum

Með nýju fólki koma nýjar áherslu. Spurð hverjar helstu áherslur hennar hafi verið í bæjarstjórastarfinu og hvaða breytingar hún hafi gert svarar Ásdís: „Ég hef lagt ríka áherslu á skilvirkan rekstur og aga í fjármálum. Við höfum farið í hagræðingaraðgerðir þvert á öll svið, stofnanir og í pólitíska nefndarkerfinu. Við höfum lækkað skatta öll árin á bæði íbúa og fyrirtæki.“

Ásdís segist hafa sett skólamálin í forgang.

„Þetta er langstærsti málaflokkur sveitarfélaganna og hef ég sett skólamálin í forgang meðal annars með hliðsjón af því að í um áratug hefur ríkt grafalvarleg staða í leikskólakerfinu, bæði í Kópavogi sem og í mörgum öðrum sveitarfélögum.

Það var ekki annað í boði en að horfast í augu við vandann og ráðast í róttækar kerfisbreytingar á leikskólum með það að markmiði að tryggja fullmannaða leikskóla og betri þjónustu. Nú sjáum við hverju breytingarnar hafa skilað, árangurinn er umfram okkar væntingar og skemmtilegt að sjá önnur sveitarfélög innleiða svipaðar breytingar í kjölfarið.“

Sveigt framhjá lögbundnum skyldum

„Stefnan í grunnskólamálum er einnig gagnrýnisverð og með ólíkindum hvernig menntamálaráðherrar undanfarinna ára hafa sveigt framhjá lögbundnum skyldum um að tryggja samræmt námsmat í grunnskólum,“ segir Ásdís. „Þó slíkt sé ekki á könnu sveitarfélaga þá eru grunnskólar okkar stærstu stofnanir og sinna mikilvægri þjónustu sem við í Kópavogi leggjum mikinn metnað í.

Ég tek því alvarlega þegar foreldrar segjast ekki hafa nægja yfirsýn yfir námsframvindu barna sinna, þegar kennarar kalla eftir stuðningi til að mæta ólíkum þörfum nemendum eða þegar nemendur vilja bæta námsárangur sinn. Þeir kalla eftir samræmdu mati, yfirsýn og stuðningi til að bæta sig.

Ég hef því nýtt síðustu mánuði í að setja mig inn í málaflokkinn og eftir að hafa heimsótt alla grunnskóla Kópavogs, átt samtöl við skólastjórnendur, kennara, nemendur, foreldra og aðra sérfræðinga, erum við að móta aðgerðir í samráði við skólasamfélagið og foreldra um hvernig við mætum fyrst og fremst þörfum nemenda, en ekki síður þörfum kennara og foreldra.“

Þessi réttindi eru í raun tímaskekkja á sama tíma og verkefni hins opinbera eru bæði umfangsmeiri og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.

Hindranir eru víða

Spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart og hvort hún hafi mætt einhverjum hindrunum í starfi sínu sem bæjarstjóri svarar Ásdís: „Hindranir eru víða og mér finnst ég dag frá degi vera að brjóta mér leið gegnum hurðar sem ættu að standa opnar.

Þannig hefur það komið mér kannski mest á óvart er að átta mig á því að þó ég sé í umboði kjósenda er ég að glíma við utanaðkomandi þætti sem hindra umboð mitt frá kjósendum um að koma málefnum í verk.

Þá er núverandi uppsagnarvernd ákaflega hamlandi og þung í vöfum. Langt kæruferli, mögulegar skaðabætur og pólitísk áhætta dregur úr hvata við að gera nauðsynlegar breytingar. Þessi réttindi eru í raun tímaskekkja á sama tíma og verkefni hins opinbera eru bæði umfangsmeiri og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Verkefni breytast og störfin með, við verðum að geta brugðist við því án þess að fara í gríðarlega flókið og kostnaðarsamt ferli í hvert sinn sem hlutum er hnikað til.“

Fjallað er um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.