Hlutabréfaverð Eikar hækkaði um rúm 6% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi fasteignafélagsins 12,1 krónur. Dagslokagengi Eikar hefur ekki verið hærra í rúm tvö ár.
Langisjór ehf., sem á m.a. Ölmu íbúðafélag og fjárfestingarfélagið Brimgarða, gerði á dögunum yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar en tilboðsskylda myndaðist er félagið eignaðist meira en 30% atkvæðisrétt í Eik.
Tilboðsverð Langasjávar er 11 krónur fyrir hvern hlut í Eik sem greiðist í reiðufé fimm virkum dögum eftir að gildistíma yfirtökutilboðsins lýkur, þann 18. október.
„Hæsta verð sem einhver samstarfsaðila hefur greitt fyrir hlutabréf í Eik á síðustu sex mánuðum fyrir dagsetningu þessa tilboðsyfirlits nemur kr. 11,2 fyrir hvern hlut,” segir í tilboðsyfirliti Langasjávar frá 20. september.
Um tvöleytið í dag áttu sér stað viðskipti með um þrjá milljón hluti í Eik á genginu 12,5 krónur og 12,6 krónur.
Langisjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik fasteignafélagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brimgörðum.
Samkvæmt tilboðsyfirlitinu á Langisjór og samstarfsaðilar þess 1.106.281.964 hluti í dag, sem samsvarar 32,31% af heildaratkvæðisrétti í Eik.
Langisjór er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um rúm 4% í viðskiptum dagsins og þá fór gengi Play upp um rúm 3%.
Dagslokagengi Play var 2 krónur og hefur ekki verið hærra síðan í júlí.
Hlutabréfaverð Icelandair hélt einnig áfram að hækka og var dagslokagengið 1,19 krónur eftir um 243 milljón króna viðskipti.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,9% og var heildarvelta á markaði 5,6 milljarðar.