Hluta­bréfa­verð Eikar hækkaði um rúm 6% í við­skiptum dagsins og var dagsloka­gengi fast­eigna­fé­lagsins 12,1 krónur. Dagsloka­gengi Eikar hefur ekki verið hærra í rúm tvö ár.

Langi­sjór ehf., sem á m.a. Ölmu í­búða­fé­lag og fjár­festingar­fé­lagið Brim­garða, gerði á dögunum yfir­töku­til­boð í allt hluta­fé Eikar en til­boðs­skylda myndaðist er fé­lagið eignaðist meira en 30% at­kvæðis­rétt í Eik.

Til­boðs­verð Langa­sjávar er 11 krónur fyrir hvern hlut í Eik sem greiðist í reiðu­fé fimm virkum dögum eftir að gildis­tíma yfir­töku­til­boðsins lýkur, þann 18. októ­ber.

„Hæsta verð sem ein­hver sam­starfs­aðila hefur greitt fyrir hluta­bréf í Eik á síðustu sex mánuðum fyrir dag­setningu þessa til­boðs­yfir­lits nemur kr. 11,2 fyrir hvern hlut,” segir í til­boðs­yfir­liti Langa­sjávar frá 20. septem­ber.

Um tvö­leytið í dag áttu sér stað við­skipti með um þrjá milljón hluti í Eik á genginu 12,5 krónur og 12,6 krónur.

Langi­sjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik fast­eigna­fé­lagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dóttur­fé­lagi sínu Brim­görðum.

Sam­kvæmt til­boðs­yfir­litinu á Langi­sjór og sam­starfs­aðilar þess 1.106.281.964 hluti í dag, sem sam­svarar 32,31% af heildar­at­kvæðis­rétti í Eik.

Langi­sjór er í eigu syst­kinanna Eggerts Árna, Guð­nýjar Eddu, Gunnars Þórs og Hall­dórs Páls Gísla­barna sem oft eru kennd við heild­verslunina Mata.

Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hækkaði um rúm 4% í við­skiptum dagsins og þá fór gengi Play upp um rúm 3%.

Dagsloka­gengi Play var 2 krónur og hefur ekki verið hærra síðan í júlí.

Hluta­bréfa­verð Icelandair hélt einnig á­fram að hækka og var dagsloka­gengið 1,19 krónur eftir um 243 milljón króna við­skipti.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 0,9% og var heildar­velta á markaði 5,6 milljarðar.