Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 2,7% í 312 milljón króna viðskiptum í Kauphöllinni en útboð á eignarhlutum ríkisins í bankanum lýkur á slaginu fimm í dag. Dagslokagengi Íslandsbanka var 115,5 krónur sem er rúmlega 8% hærra en útboðsgengi í tilboðsbók A, sem er 106,56 krónur.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka opnaði í 114,5 krónum á mánudaginn. Gengið lækkaði 112,5 krónur í gær en hækkaði síðan aftur í viðskiptum dagsins.
Fjármálaráðuneytið greindi frá því í morgun að margföld umframáskrift hafi fengist fyrir grunnmagni útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
„Fjármála- og efnahagsráðherra hefur heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu, heimild sem kann að verða nýtt í ljósi þessarar þróunar,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.
Grunnmagn útboðsins nær til 20% af útistandandi hlut eða sem nemur um 40 milljörðum króna miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A. Ráðuneytið tilkynnti á þriðjudaginn að sameiginlegir umsjónaraðilar hefðu móttekið pantanir umfram grunnmagn á fyrsta degi útboðsins.
Ráðuneytið ítrekar að áskriftir í tilboðsbók A muni njóta forgangs við úthlutun, í samræmi við markmið um að mæta eftirspurn einstaklinga áður en úthlutað er til fjárfesta í tilboðsbókum B og C.
Gert er ráð fyrir að tilboðstímabili vegna útboðsins ljúki í dag klukkan 17:00
Lokadagur greiðslu úthlutaðra hluta er ákveðinn 20. maí 2025 og áætlað er að greiddir útboðshlutir verði afhentir fjárfestum innan tveggja virkra daga frá því að greiðsla berst.
Hlutabréfaverð Arion banka hækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengi bankans fór upp um 1,5% í 779 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi bankans var 166,5 krónur á hlut.
Gengi Arion banka hefur hækkað um 5,5% tæplega frá því að útboðið hófst í vikunni.
Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði örlítið í viðskiptum dagsins en hækkunin var undir 1%. Gengi bankans hefur einnig notið góðs af útboði ríkisins og hækkað um 5% í vikunni.
Hlutabréfaverð Amaroq lækkaði fjórða viðskiptadaginn í röð en gengi málmleitarfélagsins fór niður um tæp 6% í viðskiptum dagsins.
Amaroq birti árshlutauppgjör fyrir opnun markaða í gær en gengið hefur lækkað um 13% í vikunni. Dagslokagengi Amaroq var 130,5 krónur á hlut.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,57% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta í Kauphöllinni 3 milljarðar.