Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hækkaði um 2,7% í 312 milljón króna við­skiptum í Kaup­höllinni en út­boð á eignar­hlutum ríkisins í bankanum lýkur á slaginu fimm í dag. Dagsloka­gengi Ís­lands­banka var 115,5 krónur sem er rúm­lega 8% hærra en út­boðs­gengi í til­boðs­bók A, sem er 106,56 krónur.

Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka opnaði í 114,5 krónum á mánu­daginn. Gengið lækkaði 112,5 krónur í gær en hækkaði síðan aftur í við­skiptum dagsins.

Fjár­málaráðu­neytið greindi frá því í morgun að marg­föld um­fram­á­skrift hafi fengist fyrir grunn­magni út­boðsins á hlut ríkisins í Ís­lands­banka.

„Fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hefur heimild til að auka út­boðs­magnið ef um­fram­eftir­spurn verður til staðar í út­boðinu, heimild sem kann að verða nýtt í ljósi þessarar þróunar,“ sagði í til­kynningu ráðu­neytisins.

Grunn­magn út­boðsins nær til 20% af útistandandi hlut eða sem nemur um 40 milljörðum króna miðað við 106,56 króna út­boðs­gengið í til­boðs­bók A. Ráðu­neytið til­kynnti á þriðju­daginn að sam­eigin­legir um­sjónaraðilar hefðu mót­tekið pantanir um­fram grunn­magn á fyrsta degi út­boðsins.

Ráðu­neytið ítrekar að áskriftir í til­boðs­bók A muni njóta for­gangs við út­hlutun, í samræmi við mark­mið um að mæta eftir­spurn ein­stak­linga áður en út­hlutað er til fjár­festa í til­boðs­bókum B og C.

Gert er ráð fyrir að til­boðstíma­bili vegna út­boðsins ljúki í dag klukkan 17:00

Loka­dagur greiðslu út­hlutaðra hluta er ákveðinn 20. maí 2025 og áætlað er að greiddir út­boðs­hlutir verði af­hentir fjár­festum innan tveggja virkra daga frá því að greiðsla berst.

Hluta­bréfa­verð Arion banka hækkaði einnig í við­skiptum dagsins er gengi bankans fór upp um 1,5% í 779 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi bankans var 166,5 krónur á hlut.

Gengi Arion banka hefur hækkað um 5,5% tæp­lega frá því að út­boðið hófst í vikunni.

Hluta­bréfa­verð Kviku banka hækkaði ör­lítið í við­skiptum dagsins en hækkunin var undir 1%. Gengi bankans hefur einnig notið góðs af út­boði ríkisins og hækkað um 5% í vikunni.

Hluta­bréfa­verð Amaroq lækkaði fjórða við­skipta­daginn í röð en gengi málm­leitarfélagsins fór niður um tæp 6% í við­skiptum dagsins.

Amaroq birti árs­hluta­upp­gjör fyrir opnun markaða í gær en gengið hefur lækkað um 13% í vikunni. Dagsloka­gengi Amaroq var 130,5 krónur á hlut.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,57% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta í Kauphöllinni 3 milljarðar.