Hlutabréfaverð Íslandsbanka hélt áfram að hækka í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi bankans 118,5 krónur.
Lokað var fyrir tilboð í útboði á hlutum ríkisins í bankanum í gær en útboðsgengið í tilboðsbók A, sem var einungis aðgengileg einstaklingum með íslenska kennitölu, var 106,56 krónur á hlut.
Frávikið milli útboðsgengis og dagslokagengis nemur því 10,94 krónum, sem samsvarar 11,2% álagi.
Tilboð einstaklinga í tilboðsbók A námu samtals 88,2 milljörðum króna, sem jafngildir 97,4% af heildarvirði útboðsins, sem metið er á 90,6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hlutum verði úthlutað til 31.274 einstaklinga, þó með fyrirvara um leiðréttingar við endanlega úthlutun.
Fjárfestar sem gerðu tilboð í tilboðsbækur B og C stóðu fyrir ríflega hundrað milljörðum króna eða eftirstandandi hluta af heildareftirspurn útboðsins sem nam um 190 milljörðum króna.
Í kjölfar útboðsins var allt grænt í kauphöllinni í dag er úrvalsvísitalan hækkaði um 2,81% og lokaði í 2.669,02 stigum sem er 7,8% hærra en fyrir mánuði síðan.
Hlutabréfaverð Amaroq leiddi hækkanir er gengi málmleitarfélagsins fór upp um rúm 6% en gengi félagsins hafði lækkað um 13% á fyrstu fjórum viðskiptadögum vikunnar.
Gengi Reita hækkaði um 5,6% í 242 milljón króna veltu.
Dagslokagengi félagsins var 113 krónur á hlut sem samsvarar tæplega 10% hækkun síðastliðinn mánuð.
Reitir birtu árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs eftir lokun markaða í dag sem sýndi um 10% tekjuvöxt milli ára.
Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 5% í 249 milljón króna viðskiptum og lokaði gengi félagsins í 1,07 krónur.
Aðeins fjögur félög lækkuðu í viðskiptum dagsins og lækkaði gengi Sýnar mest af þeim fjórum. Hlutabréfaverð fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins fór niður um 2,4% í 33 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Sýnar var 24,4 krónur.
Heildarvelta á markaði nam 95,1 milljarði króna en þar af var velta með bréf Íslandsbanka 90,1 milljarður vegna útboðs ríkisins.