Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hélt áfram að hækka í við­skiptum dagsins og var dagsloka­gengi bankans 118,5 krónur.

Lokað var fyrir til­boð í út­boði á hlutum ríkisins í bankanum í gær en út­boðs­gengið í til­boðs­bók A, sem var einungis að­gengi­leg ein­stak­lingum með ís­lenska kenni­tölu, var 106,56 krónur á hlut.

Frávikið milli út­boðs­gengis og dagsloka­gengis nemur því 10,94 krónum, sem sam­svarar 11,2% álagi.

Til­boð ein­stak­linga í til­boðs­bók A námu sam­tals 88,2 milljörðum króna, sem jafn­gildir 97,4% af heildar­virði út­boðsins, sem metið er á 90,6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hlutum verði út­hlutað til 31.274 ein­stak­linga, þó með fyrir­vara um leiðréttingar við endan­lega út­hlutun.

Fjár­festar sem gerðu til­boð í til­boðs­bækur B og C stóðu fyrir ríf­lega hundrað milljörðum króna eða eftir­standandi hluta af heildar­eftir­spurn út­boðsins sem nam um 190 milljörðum króna.

Í kjölfar út­boðsins var allt grænt í kaup­höllinni í dag er úr­vals­vísi­talan hækkaði um 2,81% og lokaði í 2.669,02 stigum sem er 7,8% hærra en fyrir mánuði síðan.

Hluta­bréfa­verð Amaroq leiddi hækkanir er gengi málm­leitarfélagsins fór upp um rúm 6% en gengi félagsins hafði lækkað um 13% á fyrstu fjórum við­skipta­dögum vikunnar.

Gengi Reita hækkaði um 5,6% í 242 milljón króna veltu.

Dagsloka­gengi félagsins var 113 krónur á hlut sem sam­svarar tæp­lega 10% hækkun síðastliðinn mánuð.

Reitir birtu árs­hluta­upp­gjör fyrsta árs­fjórðungs eftir lokun markaða í dag sem sýndi um 10% tekju­vöxt milli ára.

Hluta­bréfa­verð Icelandair hækkaði um 5% í 249 milljón króna við­skiptum og lokaði gengi félagsins í 1,07 krónur.

Aðeins fjögur félög lækkuðu í við­skiptum dagsins og lækkaði gengi Sýnar mest af þeim fjórum. Hluta­bréfa­verð fjar­skipta- og fjölmiðlafélagsins fór niður um 2,4% í 33 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Sýnar var 24,4 krónur.

Heildar­velta á markaði nam 95,1 milljarði króna en þar af var velta með bréf Ís­lands­banka 90,1 milljarður vegna út­boðs ríkisins.