Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins, OMXI15, lækkaði um rúmlega hálft prósentustig í dag.

Gengi bréfa flestra félaga lækkaði í viðskiptum dagsins. Þar á meðal flugfélagið Play sem lækkaði um 24,64% í 120 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Play er nú 1,04 krónur og hefur aldrei verið lægra, en um tíma í dag var gengið komið niður í 0,98 krónur á hlut.

Ekki þörf á auknu fjármagni á næstunni

Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um rúm 46% frá því á miðvikudag, en þá greindi Play frá grundvallarbreytingum á viðskiptalíkani félagsins. Það hyggt stórefla þjónustu til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi en draga töluvert úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Þá greindi Play frá því að til stæði að sækja um flugrekstrarleyfi á Möltu.

Samhliða þessu tilkynnti félagið um að uppfærð afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma félagsins verði verri en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um. Félagið telur þó ekki þörf á auknu fjármagnu til rekstarins á næstunni.

Uppgjör þriðja ársfjórðungs félagsins birtist á fimmtudaginn í næstu viku.

Talsvert var um lækkanir á markaðnum í dag. Þar á meðal lækkaði gengi bréfa Haga um 4% í 110 milljóna viðskiptum og gengi bréfa Kviku um 0,81% í 294 milljóna viðskiptum. Þá lækkaði gengi bréfa Icelandair um 1,24% í 246 milljóna viðskiptum.

Gengi bréfa einungis þriggja félaga hækkaði í viðskiptum dagsins. Heimar um 0,33% í 83 milljóna viðskiptum, Brim um 0,41% í 24 milljóna viðskiptum, og Marel um 0,76% í 1,5 milljarða króna viðskiptum.