Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, hefur fallið úr öðru sæti í það þriðja á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður vegna útstrikana í kjörklefum. Heimir Örn Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu staðfestir þetta við mbl.is.
1.453 kjósendur, eða um 15% þeirra sem greiddu Samfylkingunni atkvæði í kjördæminu, annað hvort strikuðu yfir nafn Dags eða færðu hann neðar á lista.
Þórður Snær Júlíusson, sem tilkynnti um miðjan nóvembermánuð um að hann muni ekki taka við þingsæti nái hann kjöri fyrir Samfylkinguna, færist nú upp úr þriðja sæti í það annað á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Listinn helst óbreyttur að öðru leyti.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, var í fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu. Dagbjört Hákonardóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem sitja í fjórða og fimmta sæti á listanum komast einnig á þing.