Ferða­kostnaður borgar­full­trúa Reykja­víkur­borgar frá júní 2022 til desember 2023 nam alls 13,6 milljónum króna, sam­kvæmt yfir­liti á vegum miðlægrar stjórnsýslu.

Dagur B. Eggerts­son, þáverandi borgar­stjóri, var um­svifa­mestur með 4,7 milljóna króna kostnað vegna ferðalaga á alþjóð­lega fundi og ráð­stefnur, m.a. til Dubaí, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Brussel, Port­land, Was­hington D.C., Kaup­manna­hafnar, Vilníus, Þórs­hafnar og Stutt­gart, svo dæmi séu tekin.

Á tíma­bilinu júní til loka árs 2022 sótti Dagur tvo fundi OECD í París (í septem­ber og aftur í nóvember), City Lab-ráð­stefnu í Amsterdam, Smart Cities-ráð­stefnu í Bar­selóna og svo fór hann á 700 ára af­mæli Vilníus í Lett­landi.

Árið 2023 byrjaði síðan á WHO ráð­stefnu í Kaup­mannaa­höfn, ráð­stefnu­ferð til Parísar áður en hann fór til Póllands og Lviv í Úkraínu til að undir­rita systra­borga­sam­komu­lag í maímánuði.

Í júní fór hann síðan á Urban Summit í Brussel og síðan á Urban Fu­ture ráð­stefnu í Stutt­gart í Þýska­landi.

Í ágúst­mánuði fór hann ásamt öðrum borgar­full­trúum í skoðunar- og kynnis­ferð til Port­land en sú ferð kostaði tæp­lega 700 þúsund krónur.

Dagur sótti Climate Week New York-ráð­stefnuna í Bandaríkjunum í septem­ber áður en hann fór á „fundi/ráð­stefnu“ í Flórens á Ítalíu og Genf í Sviss.

Í október 2023 fór Dagur svo aftur til Bandaríkjanna á City Lab-ráð­stefnu í Was­hington D.C.

Eini borgar­full­trúinn sem ferðaðist fyrir meiri en milljón krónur á sama tíma­bili var Þór­dís Lóa Þor­halls­dóttir en ferða­kostnaður hennar nam 1,4 milljónum króna á tíma­bilinu.

Þór­dís Lóa fór á vinnu­fund EFTA í Brussel, EFTA fund í Saignelégi­er í Sviss ásamt því að fara með Degi til Póllands og Úkraínu að undir­rita systra­borga­sam­komu­lagið.

Þór­dís fór einnig í skoðunar- og kynnis­ferð til Port­land en sú ferð kostnaði um 412 þúsund krónur. Þá sótti hún annan EFTA fund í Brussel undir lok árs 2023.

Þegar sundur­liðun ferða­kostnaðar vegna em­bættis­manna er skoðuð er ljóst að Diljá Ragnars­dóttir, að­stoðar­maður borgar­stjóra, ferðaðist lang­mest.

Heildar­kostnaður af ferðum Diljár var 3,2 milljónir króna en hún sótti eðli málsins sam­kvæmt flesta fundi og ráð­stefnur og borgar­stjóri.