Ferðakostnaður borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá júní 2022 til desember 2023 nam alls 13,6 milljónum króna, samkvæmt yfirliti á vegum miðlægrar stjórnsýslu.
Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, var umsvifamestur með 4,7 milljóna króna kostnað vegna ferðalaga á alþjóðlega fundi og ráðstefnur, m.a. til Dubaí, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Brussel, Portland, Washington D.C., Kaupmannahafnar, Vilníus, Þórshafnar og Stuttgart, svo dæmi séu tekin.
Á tímabilinu júní til loka árs 2022 sótti Dagur tvo fundi OECD í París (í september og aftur í nóvember), City Lab-ráðstefnu í Amsterdam, Smart Cities-ráðstefnu í Barselóna og svo fór hann á 700 ára afmæli Vilníus í Lettlandi.
Árið 2023 byrjaði síðan á WHO ráðstefnu í Kaupmannaahöfn, ráðstefnuferð til Parísar áður en hann fór til Póllands og Lviv í Úkraínu til að undirrita systraborgasamkomulag í maímánuði.
Í júní fór hann síðan á Urban Summit í Brussel og síðan á Urban Future ráðstefnu í Stuttgart í Þýskalandi.
Í ágústmánuði fór hann ásamt öðrum borgarfulltrúum í skoðunar- og kynnisferð til Portland en sú ferð kostaði tæplega 700 þúsund krónur.
Dagur sótti Climate Week New York-ráðstefnuna í Bandaríkjunum í september áður en hann fór á „fundi/ráðstefnu“ í Flórens á Ítalíu og Genf í Sviss.
Í október 2023 fór Dagur svo aftur til Bandaríkjanna á City Lab-ráðstefnu í Washington D.C.
Eini borgarfulltrúinn sem ferðaðist fyrir meiri en milljón krónur á sama tímabili var Þórdís Lóa Þorhallsdóttir en ferðakostnaður hennar nam 1,4 milljónum króna á tímabilinu.
Þórdís Lóa fór á vinnufund EFTA í Brussel, EFTA fund í Saignelégier í Sviss ásamt því að fara með Degi til Póllands og Úkraínu að undirrita systraborgasamkomulagið.
Þórdís fór einnig í skoðunar- og kynnisferð til Portland en sú ferð kostnaði um 412 þúsund krónur. Þá sótti hún annan EFTA fund í Brussel undir lok árs 2023.
Þegar sundurliðun ferðakostnaðar vegna embættismanna er skoðuð er ljóst að Diljá Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður borgarstjóra, ferðaðist langmest.
Heildarkostnaður af ferðum Diljár var 3,2 milljónir króna en hún sótti eðli málsins samkvæmt flesta fundi og ráðstefnur og borgarstjóri.