Í dag eru liðin 35 ár frá fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar í Peking en þann 4. júní 1989 skutu kínverskir hermenn á samlanda sína sem höfðu mótmælt í tæpar sex vikur. Óvíst er hversu margir létust þennan dag en tölurnar eru sagðar vera á bilinu 180 til 10.454.

Það sem er hins vegar ljóst er að bæði mótmælin og atlaga hersins gegn þeim myndu koma til með að gjörbreyta kínverskum stjórnmálum, samfélagi og efnahag.

Mótmælin áttu sér langa forsögu en þegar þau brutust út var Kína að ganga í gegnum margar breytingar í kjölfar dauða Mao Zedong og endaloka menningarbyltingarinnar. Á þessum tíma var mikil fátækt í Kína og var lögð rík áhersla á persónudýrkun og hugmyndafræði.

Eftir dauða Mao fóru efnahagsumbætur af stað undir forystu Deng Xiaoping. Deng hafði verið ásakaður um kapítalísk áform og var látinn vinna í traktorverksmiðju í menningarbyltingunni. Þegar hann tók við lét hann þau frægu orð út úr sér í tengslum við kommúnisma og kapítalisma: „Mér er alveg sama hvort kötturinn sé svartur eða hvítur, svo lengi sem hann nær músinni.“

Deng Xiaoping leiddi efnahagsumbæturnar sem gerði Kína að því landi sem það er í dag.
© Twitter (X) (Twitter (X))

Árið 1981 hafði kínverska ríkið afsalað sér dreifingu auðlinda frá rúmlega 73% allra sveitabæja landsins og fengu 80% af ríkisfyrirtækjum að viðhalda eigin hagnaði. Almenningur var almennt ánægður með breytingarnar en áhyggjur af spillingu og frændhyggju fóru vaxandi.

Óánægja með spillingu fór að ná suðupunkti hjá íbúum í Kína og þá sérstaklega meðal menntaelítunnar sem taldi að lýðræðisumbætur og réttarríki væru eina lausnin við vandamálinu.

Mótmælin hefjast

Algengur misskilningur á Vesturlöndum er sú trú að mótmælin á Torgi hins himneska friðar hafi verið valdaránstilraun af hálfu kínverskra háskólanema til að steypa kínversku ríkisstjórninni af valdastóli og innleiða lýðræði. Annar misskilningur er að mótmælin voru aðeins í höfuðborginni en þau áttu sér stað í mörgum borgum Kína eins og Shanghai og Chengdu.

Rúmlega milljón Kínverjar mótmæltu við torgið þegar mest gekk á.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Mótmælendur voru vissulega lýðræðissinnaðir og voru mörg merki um það á torginu, til að mynda styttan Gyðja lýðræðisins sem nemendur úr kínverska listaháskólanum bjuggu til. Áköll þeirra voru þó beind að umbótum innan flokksins en nokkrir meðlimir Kommúnistaflokksins voru sammála þessu.

Styttan Goddess of Democracy.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Einn af þeim var flokksleiðtoginn Hu Yaobang en námsmenn töldu hann vera ákafasta umbótasinna í forystu Kína. Deng Xiaoping lét þó víkja Hu úr embætti í janúar 1987 þar sem Deng taldi hann ekki hafa hemil á andófi námsmanna gegn stjórnvöldum.

Hu Yaobang lést þann 15. apríl 1989 og tveimur dögum seinna héldu þúsundir Kínverja til miðborgar Peking þrátt fyrir viðvaranir stjórnvalda. Mótmælin byrjuðu í raun sem minningarathöfn um Hu Yaobang en á næstu vikum myndu þau stækka og fóru almennir verkamenn að ganga til liðs við námsmennina á torginu.

Hungurverkfall og heimsókn

Þann 13. maí voru mótmælin enn í fullum gangi og ákváðu nemendur þá að fara í hungurverkfall. Ákvörðunin var tekin tveimur dögum fyrir heimsókn Mikhail Gorbachevs til Peking en mótmælendur vildu nota tækifærið til að vekja athygli á kröfum sínum.

Mótmælendur byrjuðu að fá mikla samúð meðal almennings en margir Kínverjar á þessum tíma mundu enn eftir stærstu hungursneyð mannkynssögunnar sem skall á Kína seint á sjöunda áratugnum. Tilhugsunin við að neita að borða þegar matur var til staðar var nánast óhugsandi á þessum tíma.

© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Ríkisstjórnin tók þessu mjög nærri sér en heimsókn leiðtoga Sovétríkjanna var meira en hefðbundinn fundur tveggja ríkja. Löndin voru að reyna að ná sáttum eftir að ósætti þeirra í kalda stríðinu með stefnu kommúnismans. Það að ekki hafi verið hægt að halda athöfn fyrir leiðtogann á torginu vegna mótmæla var blaut tuska í andlit stjórnvalda.

Herinn mætir

Hungurverkfallið varð til þess að milljónir íbúa í Peking fóru að mótmæla með nemunum. Tilraunir Zhao Ziyang, fyrrum leiðtoga flokksins, til að semja við mótmælendur og biðla til þeirra um að hætta hungurverkfallinu gengu ekki.

Þann 20. maí var herlögum lýst yfir og voru minnst 30 herdeildir frá fimm af sjö hersvæðum Kína sendar til höfuðborgarinnar. Þegar júní byrjaði voru flestallir leiðtogar kommúnistaflokksins sammála um að nú þyrfti að láta til skarar skríða og tæma torgið.

© Wikimedia Commons (Wikipedia)
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Um kvöldið þann 3. júní fyrirskipaði herinn mótmælendum að yfirgefa torgið í síðasta sinn. Skipun hersins var ekki tekin alvarlega og héldu námsmenn áfram að kasta steinum og fúkyrðum í hermennina. Klukkan hálf ellefu um kvöldið hófst skothríðin.

Mótmælendur gátu varla trúað því að þeirra eigin her væri að nota alvöru skotfæri á samlanda sína og byrjuðu að hörfa í átt að Muxidi-brúnni skammt frá torginu. Þar héldu hermenn áfram að skjóta á mótmælendur og skutu einnig viðvörunarskotum sem enduðu í íbúum nærliggjandi blokka.

Átök geisuðu í miðborg Peking en flestir mótmælendur létust ekki á torginu sjálfu.
© Twitter (X) (Twitter (X))

Hermenn urðu líka fyrir árásum en fréttamaðurinn Jeff Widener sagði að mólotov-kokteilum hefði verið hent í skriðdreka sem varð til þess að hermenn náðu ekki að komast út og brunnu til dauða.

Átökin héldu áfram 4. júní en daginn eftir var herinn búinn að taka yfir borgina. Skriðdrekar keyrðu niður Chang‘an-aðalgötuna í Peking í röð en þar náði einn ljósmyndari mynd af djörfum einstaklingi sem ákvað að standa í vegi fyrir skriðdrekana.

Afleiðingar

Vestræn ríki fordæmdu kínversk stjórnvöld fyrir aðgerðirnar og voru refsiaðgerðum beittar af hálfu bandarískra yfirvalda og ríkja innan ESB. Atburðurinn varð einnig til þess að töf varð á innleiðingu Kína inn í Alþjóðaviðskiptastofnunina en hún gerðist ekki fyrr en tólf árum seinna, árið 2001.

Vopnasölubann var sett á Kína og varð landið mjög einangrað meðal þjóða heimsins. Þetta var verulegt áfall fyrir flokkinn, sem hafði sóst eftir erlendum fjárfestum í gegnum níunda áratuginn. Þjóðarímyndin tók mikið högg á sig og þurftu leiðtogar innan forystu Deng að vinna hart að því að laga þá mynd næstu árin.

Frá forsíðu Morgunblaðsins 7. júní 1989.
© Skjáskot (Skjáskot)

Samkvæmt fundarskjölum kínversku ríkisstjórnarinnar var samhljómur innan flokksins um að stjórnvöld gætu aldrei leyft slíkum mótmælum að breiðast út eins og gerðist á torginu. Ákvörðun var tekin um að bæla niður öll mótmæli og andófshreyfingar við fæðingu og útskýrir það enn í dag harðstjórnina sem ríkir í Kína.

Efnahagsumbætur

Deng Xiaoping skynjaði að íhaldsmenn voru farnir að ná fótfestu innan flokksins og vildi hann ekki sjá afturför í eigin umbótastefnu. Árið 1992 hélt hann í ferðalag um suðurhluta Kína, sem nefndist einfaldlega The Southern Tour. Þar heimsótti hann ýmsar borgir og beitti sér fyrir frekari efnahagsumbótum.

Þetta ferðalag varð meðal annars til þess að um miðjan tíunda áratuginn fór landið að sækjast aftur eftir markaðsfrelsi og sáust miklar efnahagsumbætur um miðjan áratuginn. Þrátt fyrir að frjálslyndum flokksmönnum hafði verið bolað úr flokknum þá voru enn margir frjálslyndir stjórnmálamenn eftir þegar kom að efnahagsmálum.

Frá ferðalagi Deng Xiaoping um suðurhluta Kína.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Ákveðið samkomulag var gert milli stjórnvalda og kínversks almennings eftir mótmælin en ríkisstjórnin beitti sér fyrir efnahagsumbótum og frekari landsframleiðsluvexti ef hún fengi áfram að stjórna.

Í dag er lítið sem ekkert minnst á mótmælin í Kína en áhrifin sem þau höfðu á landið eru mjög sjáanleg. Ríkisstjórnin undir forystu Xi Jinping hefur tekið mun harðari afstöðu gegn gagnrýni og á sama tíma talar óhóflega mikið um efnahagsgróða, líkt og ríkisstjórnirnar sem á undan henni komu.

Blaðamenn fá gjarnan ekki aðgang á torgið á deginum sjálfum og er neteftirlit í Kína hert til muna á hverju ári þann 4. júní. Í janúar 2006 var Google til að mynda gagnrýnt fyrir að framfylgja skipun stjórnvalda um að ritskoða allt sem tengdist mótmælunum. Stefnan er enn skýr meðal stjórnvalda en hún virðist vera að hunsa atvikið sjálft en taka fagnandi þeim breytingum sem áttu sér stað í kjölfarið.