Íslenska heilsutæknifyrirtækið dala.care hefur tryggt sér 1,4 milljóna dollara fjármögnun, eða sem nemur 190 milljónum króna, sem verður nýtt í að fjölga starfsfólki og styrkja markaðssókn félagsins í Bandaríkjunum.

Íslenska heilsutæknifyrirtækið dala.care hefur tryggt sér 1,4 milljóna dollara fjármögnun, eða sem nemur 190 milljónum króna, sem verður nýtt í að fjölga starfsfólki og styrkja markaðssókn félagsins í Bandaríkjunum.

„Við erum gríðarlega spennt fyrir þeim tækifærum sem þessi fjármögnun mun opna fyrir okkur, bæði til að stækka teymið og ná enn meiri fótfestu á Bandaríkjamarkaði,“ segir Finnur Pálmi Magnússon, framkvæmdastjóri dala.care.

„Við sjáum fram á að geta hraðað þróun lausnarinnar og þjónað viðskiptavinum okkar enn betur.“

dala.care hefur þróað lausn fyrir heimaþjónustu á Íslandi. Lausnin er þegar í innleiðingu hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og eru fimm önnur sveitarfélög byrjuð að nota eða að innleiða hugbúnaðinn. Þá hafa fyrirtækin Sinnum og Sóltún Heima valið dala.care fyrir sína heimaþjónustu.

„Það er fátt sem gleður okkur meira en að fá góða endurgjöf frá núverandi viðskiptavinum. Við höfum fengið staðfestingu á því að lausnin okkar mætir vel þörfum markaðarins og erum komin á þann stað að viðskiptavinir okkar eru farnir að selja lausnina fyrir okkur út frá afspurn. Það er verðmætt að geta vaknað á morgnana vitandi að við erum í raun að létta undir með fólki sem veitir og þiggur heimaþjónustu,“ segir Finnur.

Origo leiðir fjármögnunina

Origo leiðir fjárfestinguna sem hefur einnig í för með sér formlegt samstarf Helix, dótturfélags Origo, og dala.care.

Félögin hafa nú þegar undirritað endursölusamning þar sem Helix verður endursöluaðili á Íslandi en auk þess er hafið samstarf um að samþætta félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun hérlendis.

„Origo vill vera lyftistöng nýsköpunar meðal fyrirtækja sem hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að ná árangri með tækninni. dala.care gerir það svo sannarlega með sinni lausn. Í gegnum Helix höldum við þegar úti sambærilegum hugbúnaðarlausnum fyrir hjúkrunarþjónustu og með dala.care getum teygt framboðið inn í velferðarþjónustu líka,“ segir Ari Daníelsson forstjóri Origo.

Í tilkynningunni segir að markaðssókn í Bandaríkjunum sé lykilþáttur í framtíðarstefnu dala.care, þar sem fyrirtækið sér mikil tækifæri til að auka útbreiðslu sína og nýta sér þann markað fyrir stafrænar heimaþjónustulausnir.