Dala.care hefur tryggt sér 200 milljóna króna aukna fjármögnun frá Omega og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja til að hraða vexti fyrirtækisins á bandarískum markaði.

Fjármögnunin var meðal annars nýtt til kaupa á bandarísku heimaþjónustuhugbúnaði með 250 virka viðskiptavini, sem mun styrkja stöðu dala.care sem leiðandi fyrirtæki í þróun hugbúnaðar fyrir heimaþjónustu.

Með þessum kaupum fær dala.care ekki aðeins sterkan viðskiptagrunn til viðbótar við núverandi viðskiptavini í Bandaríkjunum, heldur einnig aukinn markaðsaðgang vestanhafs, að því er kemur fram í tilkynningu.

Í tilkynningunni segir að sérstök áhersla verði lögð á að styðja þjónustu sem snýr að því að bæta og viðhalda heilsu aldraðra í heimaþjónustu, þar sem þörfin fyrir stafrænar lausnir hefur aukist hratt undanfarin ár.

Í kjölfar fjárfestingunnar hefur verið stofnuð skrifstofa dala.care í Bandaríkjunum og ráðið starfsfólk sem sinnir þjónustu og vexti þar.

Fjárfestingin mun jafnframt gera dala.care kleift að hraða samþættingu heimaþjónustu og heilbrigðisþjónustu, en sú þróun hefur verið í brennidepli bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Með áframhaldandi nýsköpun og stækkandi viðskiptavinaflóru er markmið dala.care að tryggja að fleiri geti lifað sínu besta lífi heima, lengur.

„Þetta er stórt skref fyrir dala.care í þeirri vegferð að efla starfsemi okkar á bandarískum markaði. Með þessum kaupum og öflugum fjárfestum á bak við okkur getum við flýtt fyrir útbreiðslu okkar og eflt þjónustu sem styður við vaxandi þörf fyrir samþætta umönnun aldraðra,“ segir Finnur Pálmi Magnússon, framkvæmdastjóri dala.care.