Jensen Huang, stofnandi og forstjóri Nvidia, og Friðrik Danakonungur kveiktu sameiginlega á ofurtölvunni Gefion í Danmörku í dag.
„Ég er ekki eini konungurinn í herberginu það er líka einn hér í leðurjakka,“ sagði Friðrik Danakonungur og benti á Huang, samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen.
Danish Center for AI Innovation (DCAI) mun sjá um rekstur tölvunnar en um er að ræða samstarfsverkefni Novo Nordisk Foundation (85%) og danska fjárfestingasjóðsins Eifo (15%).
Ofurtölvan kostar um 700 milljónir danskra króna sem samsvarar um 14 milljörðum íslenskra króna.
Nvidia útvegaði alls 1.528 NVDIA H100 Tensor GPU-reikniörgjörva sem munu keyra tölvuna áfram. Samkvæmt Børsen er gríðarleg eftirspurn eftir slíkum örgjörvum en tölvan verður keyrð áfram af gervigreind.
Vísindamenn, bæði úr opinbera og einkageiranum, fá aðgang að tölvunni sem setur Danmörku í bílstjórasætið í tækninýjungum framtíðarinnar.
Samkvæmt Nadia Carlsten, forstjóra DCAI, hafa ofurtölvur líkt og Gefion einungis verið notaðar innanhúss hjá stóru tæknifyrirtækjunum.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er í landi þar sem svona margir bera nafnið Jensen, þannig góðan daginn Jensen,“ sagði Jensen Huang er hann gekk á sviðið í dag.
Viðburðurinn var haldinn í Kastrup í Danmörku en þar sem tölvan telst til mikilvægra innviða hefur ekki verið gefið upp hvar hún er stödd en hún er á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu.
„Látum þetta vera rásmarkið fyrir tölvureiknaða lyfjaframleiðslu,“ sagði Huang á viðburðinum.
„Það er ástæða fyrir því að verðmætustu fyrirtæki heims sýna Danmörku áhuga,“ sagði Huang sem einnig hrósaði Dönum fyrir að vera duglegir í gagnasöfnum og gagnavinnslu.