Jen­sen Huang, stofnandi og for­stjóri Nvidia, og Frið­rik Dana­konungur kveiktu sam­eigin­lega á ofur­tölvunni Gefion í Dan­mörku í dag.

„Ég er ekki eini konungurinn í her­berginu það er líka einn hér í leður­jakka,“ sagði Frið­rik Dana­konungur og benti á Huang, sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen.

Danish Center for AI In­novation (DCAI) mun sjá um rekstur tölvunnar en um er að ræða sam­starfs­verk­efni Novo Nor­disk Founda­tion (85%) og danska fjár­festinga­sjóðsins Eifo (15%).

Ofur­tölvan kostar um 700 milljónir danskra króna sem sam­svarar um 14 milljörðum ís­lenskra króna.

Nvidia út­vegaði alls 1.528 NVDIA H100 Tensor GPU-reikni­ör­gjörva sem munu keyra tölvuna á­fram. Sam­kvæmt Børsen er gríðar­leg eftir­spurn eftir slíkum ör­gjörvum en tölvan verður keyrð á­fram af gervi­greind.

Vísinda­menn, bæði úr opin­bera og einka­geiranum, fá að­gang að tölvunni sem setur Dan­mörku í bíl­stjóra­sætið í tækni­nýjungum fram­tíðarinnar.

Sam­kvæmt Nadia Carlsten, for­stjóra DCAI, hafa ofur­tölvur líkt og Gefion einungis verið notaðar innan­húss hjá stóru tækni­fyrir­tækjunum.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er í landi þar sem svona margir bera nafnið Jen­sen, þannig góðan daginn Jen­sen,“ sagði Jen­sen Huang er hann gekk á sviðið í dag.

Við­burðurinn var haldinn í Kastrup í Dan­mörku en þar sem tölvan telst til mikil­vægra inn­viða hefur ekki verið gefið upp hvar hún er stödd en hún er á Stór-Kaup­manna­hafnar­svæðinu.

Það fór vel á milli Friðriks og Jensen á viðburðinum.
Það fór vel á milli Friðriks og Jensen á viðburðinum.
© EPA-EFE (EPA-EFE)

„Látum þetta vera rás­markið fyrir tölvu­reiknaða lyfja­fram­leiðslu,“ sagði Huang á við­burðinum.

„Það er á­stæða fyrir því að verð­mætustu fyrir­tæki heims sýna Dan­mörku á­huga,“ sagði Huang sem einnig hrósaði Dönum fyrir að vera dug­legir í gagna­söfnum og gagna­vinnslu.

Jensen Huang forstjóri Nvidia, Nadia Carlsten forstjóri DCAI og Friðrik Danakonugur.
© EPA-EFE (EPA-EFE)