Mikil umræða hefur skapast í Danmörku að undanförnu um festingu dönsku krónunnar við evruna en danski seðlabankinn hefur takmörkuð tól til að bregðast við vaxandi verðbólgu með beinum hætti vegna fastgengisstefnunnar.
Danmarks Nationalbank, seðlabanki Danmerkur, er ekki með verðbólgumarkmið heldur ber að viðhalda föstu gengi við evruna innan ákveðins bils með það í huga að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. „Það hefur virkað vel á meðan verðlag hefur lítið breyst,“ segir í umfjöllun Bloomberg.
Verðbólga í Danmörku hefur þó, líkt og víða um heim, rokið upp á síðustu mánuðum. Hún mældist 10,1% október og hefur ekki verið meiri frá því um það leyti sem fastgengisstefnan var kynnt fyrir rúmum fjórum áratugum.
Á undanförnum mánuðum hafa ýmsir hagfræðingar, hugveitur og fyrrum ráðherrar í Danmörku kallað eftir samtali um hvort fastgengisstefnan sé enn það rétta í stöðunni fyrir peningastefnu danska seðlabankans.
Í stuttu máli efast þeir um hæfni Seðlabanka Evrópu til að halda verðbólgu í skefjum. Í ljósi mikils viðskiptaafgangs Danmerkur, gæti styrking dönsku krónunnar dregið úr verðbólguþrýstingi.
„Verðbólguskotið hefur ýtt af stað mestu rökræðum um festingu krónunnar við evruna sem við höfum séð í heila kynslóð,“ sagði Las Olsen, aðalhagfræðingur Danske Bank, í hagsjá sem bankinn birti í dag. Umræðan hafi ekki verið meiri frá ERM-krísunni árið 1992.
Hann bætir þó við að enn sé lagt í að hin almenna skoðun á evrufestingunni breytist. Þá sé afar ólíklegt að vikið verði frá núverandi peningastefnu Danmerkur sem studd sé af meirihluta fræði-, embættis- og stjórnmálamanna ásamt seðlabankanum sjálfum.
Þá telur Olsen ólíklegt að verðbólgan í Danmörku hefði þróast með öðrum hætti ef seðlabankinn hefði verið með verðbólgumarkmið frekar en fastgengisstefnu.
„Óháð því hvort menn telji mikla verðbólgu á evrusvæðinu vera mistök í peningastefnu Seðlabanka Evrópu eða vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna (eða blöndu) þá sjáum við lítil rök fyrir því að sömu stefnur og þættir hefðu verið öðruvísi í Danmörku við fljótandi gengi. Þróunin hefur verið svipuð i flestum þróuðum hagkerfum.“