Bandaríkin eru eitt mikilvægasta við­skipta­land Dan­merkur, sem gerir Dönum mögu­lega erfitt fyrir að svara refsi­tollunum sem Donald Trump Bandaríkja­for­seti hefur boðað á Evrópu­sam­bandið.

Sam­kvæmt fjölmörgum hag­fræðingum, sem danski við­skipta­miðlinn Børsen ræddi við,
gæti reynst bæði flókið og kostnaðar­samt fyrir Dan­mörku að taka þátt í við­skipta­stríði.

Dan­mörk flytur inn vörur frá Bandaríkjunum fyrir sam­tals 185 milljarða danskra króna ár­lega, en aðeins um 40 milljarðar af þeim eru áþreifan­legar vörur sem fara yfir landa­mærin. Hinn hlutinn er mest­megnis þjónusta sem erfitt er að leggja tolla á sam­kvæmt Børsen.

„Þú getur aðeins lagt toll á eitt­hvað sem þú getur lyft og látið detta á fæturna á þér. Það verður að vera eitt­hvað sem fer líkam­lega í gegnum póst­hús eða toll­miðstöð, en þjónusta gerir það ekki. Stór hluti inn­fluttra vara fer heldur ekki yfir dönsku landa­mærin,“ segir Tore Stra­mer, aðal­hag­fræðingur hjá dönsku við­skiptaráðinu (Dansk Er­hver­v).

Þær vörur sem ekki fara yfir landa­mærin er t.d. þegar dönsk skip kaupa elds­neyti er­lendis, til dæmis í Bandaríkjunum.

Þjónusta um 79% af heildar­inn­flutningi

Þjónusta stendur fyrir um 131 milljarð danskra króna af heildar­inn­flutningnum frá Bandaríkjunum og aðrar vörur sem ekki fara yfir landa­mærin nema rétt rúma 14 milljörðum danskra. Þetta þýðir að hefðbundnir tollar ná ekki til um 79% af heildar­inn­flutningi frá Bandaríkjunum.

„Þjónusta er vítt hug­tak og nær fyrst og fremst til flutninga, en einnig fjölmiðla, svo sem kvik­mynda og sam­félags­miðla, auk stjórnunarþjónustu, rannsókna og fjár­málaþjónustu,“ segir Jørn Freds­ga­ard, yfir­maður greiningar­deildar Eifo, ríkis­sjóðs Dana.

Dæmi um fjár­málaþjónustu gæti verið greiðsla á milli fyrir­tækja í Bandaríkja­dölum eða ein­fald­lega þegar Dani með fjár­festingar­reikning kaupir hluta­bréf Micros­oft á bandarískum markaði. Þar sem við­skiptin fara fram í dölum, þá kaupir hann fjár­málaþjónustu frá Bandaríkjunum sem hluta af við­skiptunum.

„Fjár­málaþjónusta er svo stór vegna þess að dollarinn er heims­við­skipta­myntin. Mörg grunn­at­riði í fjár­mála­heiminum eru fram­kvæmd í dölum og oftast í gegnum bandaríska banka,“ segir hann.

Olía og gas stærstur hluti áþreifan­legra vara

Ef litið er á áþreifan­legar vörur sem dönsk fyrir­tæki flytja inn, þá eru olía og gas stærsti flokkurinn með heildar­verðmæti upp á 15 milljarða danskra króna af þeim 40 milljörðum DKK sem keyptir eru ár­lega.

Olía og gas eru vörur sem hægt væri að leggja tolla á, en spurningin er hvort það sé góð hug­mynd á sama tíma og Evrópa reynir að draga úr notkun rúss­neskra orku­gjafa.

„Viðbrögðin verða samræmd af Evrópu­sam­bandinu. Ég geri ráð fyrir að bæði Bandaríkin og Evrópa reyni að halda orkunni utan við­skipta­stríðsins,“ segir Tore Stra­mer frá Dansk Er­hver­v.

Samtök iðnaðarins í Dan­mörku (Dansk Industri) vonast eftir því að ESB sleppi því að leggja tolla á nauð­syn­legar vörur eins og olíu og gas.

„Það sem við höfum heyrt frá fram­kvæmda­stjórn ESB er að þau muni ein­blína á vörur sem við þurfum ekki frá Bandaríkjunum, eða sem við getum fengið annars staðar. Við þurfum olíu og gas, svo það er lík­lega ekki skyn­sam­legt að leggja tolla á það,“ segir Peter Bay Kirkega­ard, yfir­ráðgjafi hjá DI.

Tákn­rænir tollar á lúxu­s­vörur ekki nóg

Kirkega­ard bendir á að bandarískt rauðvín, búrbon og aðrar mat­vörur séu aug­ljósari val­kostir til að leggja tolla á en það eru aðeins vörur að verðmæti 1,3 milljarðar DKK í heildar­inn­flutningi.

„Þú verður að skoða stærri myndina í Evrópu. Þar finnast örugg­lega vörur með meira um­fang. Það geta verið vélar og önnur tæki sem við getum fengið annars staðar í heiminum,“ segir hann og nefnir að í síðasta við­skipta­stríði voru Harl­ey-David­son mótor­hjól og búrbon meðal þeirra vara sem fengu auka­tolla.

„Við þurfum ekki að bregðast við í sama mæli. Það sem skiptir máli er að við svörum þar sem það hefur raun­veru­lega þýðingu fyrir okkur. Ef það skiptir ekki máli að svara á ákveðnum sviðum ættum við ekki að gera það. Við ættum ekki að skjóta okkur í fótinn,“ segir Peter Bay Kirkega­ard.

Ef olía og gas eru undan­skilin heildar­inn­flutningi Dana, þá standa eftir vörur að verðmæti um 25 milljarðar DKK sem hægt væri að leggja tolla á.

Þetta þýðir þó ekki að danskir aðilar sleppi við mögu­legan heildar­toll ESB á inn­flutning frá Bandaríkjunum, bendir Jørn Freds­ga­ard frá Eifo á.

„Við verðum að muna eftir óbeinum inn­flutningi. Það er þegar vörur eru fluttar inn beint frá Þýska­landi eða Bret­landi, en þar eru undir­hlutar og efni upp­runnin í Bandaríkjunum. Þetta er mjög hátt hlut­fall. Þannig að Bandaríkin eru samt næst­stærsti inn­flutnings­markaðurinn okkar, hvernig sem á það er litið,“ segir yfir­maður Freds­ga­ard.