Bandaríkin eru eitt mikilvægasta viðskiptaland Danmerkur, sem gerir Dönum mögulega erfitt fyrir að svara refsitollunum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað á Evrópusambandið.
Samkvæmt fjölmörgum hagfræðingum, sem danski viðskiptamiðlinn Børsen ræddi við,
gæti reynst bæði flókið og kostnaðarsamt fyrir Danmörku að taka þátt í viðskiptastríði.
Danmörk flytur inn vörur frá Bandaríkjunum fyrir samtals 185 milljarða danskra króna árlega, en aðeins um 40 milljarðar af þeim eru áþreifanlegar vörur sem fara yfir landamærin. Hinn hlutinn er mestmegnis þjónusta sem erfitt er að leggja tolla á samkvæmt Børsen.
„Þú getur aðeins lagt toll á eitthvað sem þú getur lyft og látið detta á fæturna á þér. Það verður að vera eitthvað sem fer líkamlega í gegnum pósthús eða tollmiðstöð, en þjónusta gerir það ekki. Stór hluti innfluttra vara fer heldur ekki yfir dönsku landamærin,“ segir Tore Stramer, aðalhagfræðingur hjá dönsku viðskiptaráðinu (Dansk Erhverv).
Þær vörur sem ekki fara yfir landamærin er t.d. þegar dönsk skip kaupa eldsneyti erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum.
Þjónusta um 79% af heildarinnflutningi
Þjónusta stendur fyrir um 131 milljarð danskra króna af heildarinnflutningnum frá Bandaríkjunum og aðrar vörur sem ekki fara yfir landamærin nema rétt rúma 14 milljörðum danskra. Þetta þýðir að hefðbundnir tollar ná ekki til um 79% af heildarinnflutningi frá Bandaríkjunum.
„Þjónusta er vítt hugtak og nær fyrst og fremst til flutninga, en einnig fjölmiðla, svo sem kvikmynda og samfélagsmiðla, auk stjórnunarþjónustu, rannsókna og fjármálaþjónustu,“ segir Jørn Fredsgaard, yfirmaður greiningardeildar Eifo, ríkissjóðs Dana.
Dæmi um fjármálaþjónustu gæti verið greiðsla á milli fyrirtækja í Bandaríkjadölum eða einfaldlega þegar Dani með fjárfestingarreikning kaupir hlutabréf Microsoft á bandarískum markaði. Þar sem viðskiptin fara fram í dölum, þá kaupir hann fjármálaþjónustu frá Bandaríkjunum sem hluta af viðskiptunum.
„Fjármálaþjónusta er svo stór vegna þess að dollarinn er heimsviðskiptamyntin. Mörg grunnatriði í fjármálaheiminum eru framkvæmd í dölum og oftast í gegnum bandaríska banka,“ segir hann.
Olía og gas stærstur hluti áþreifanlegra vara
Ef litið er á áþreifanlegar vörur sem dönsk fyrirtæki flytja inn, þá eru olía og gas stærsti flokkurinn með heildarverðmæti upp á 15 milljarða danskra króna af þeim 40 milljörðum DKK sem keyptir eru árlega.
Olía og gas eru vörur sem hægt væri að leggja tolla á, en spurningin er hvort það sé góð hugmynd á sama tíma og Evrópa reynir að draga úr notkun rússneskra orkugjafa.
„Viðbrögðin verða samræmd af Evrópusambandinu. Ég geri ráð fyrir að bæði Bandaríkin og Evrópa reyni að halda orkunni utan viðskiptastríðsins,“ segir Tore Stramer frá Dansk Erhverv.
Samtök iðnaðarins í Danmörku (Dansk Industri) vonast eftir því að ESB sleppi því að leggja tolla á nauðsynlegar vörur eins og olíu og gas.
„Það sem við höfum heyrt frá framkvæmdastjórn ESB er að þau muni einblína á vörur sem við þurfum ekki frá Bandaríkjunum, eða sem við getum fengið annars staðar. Við þurfum olíu og gas, svo það er líklega ekki skynsamlegt að leggja tolla á það,“ segir Peter Bay Kirkegaard, yfirráðgjafi hjá DI.
Táknrænir tollar á lúxusvörur ekki nóg
Kirkegaard bendir á að bandarískt rauðvín, búrbon og aðrar matvörur séu augljósari valkostir til að leggja tolla á en það eru aðeins vörur að verðmæti 1,3 milljarðar DKK í heildarinnflutningi.
„Þú verður að skoða stærri myndina í Evrópu. Þar finnast örugglega vörur með meira umfang. Það geta verið vélar og önnur tæki sem við getum fengið annars staðar í heiminum,“ segir hann og nefnir að í síðasta viðskiptastríði voru Harley-Davidson mótorhjól og búrbon meðal þeirra vara sem fengu aukatolla.
„Við þurfum ekki að bregðast við í sama mæli. Það sem skiptir máli er að við svörum þar sem það hefur raunverulega þýðingu fyrir okkur. Ef það skiptir ekki máli að svara á ákveðnum sviðum ættum við ekki að gera það. Við ættum ekki að skjóta okkur í fótinn,“ segir Peter Bay Kirkegaard.
Ef olía og gas eru undanskilin heildarinnflutningi Dana, þá standa eftir vörur að verðmæti um 25 milljarðar DKK sem hægt væri að leggja tolla á.
Þetta þýðir þó ekki að danskir aðilar sleppi við mögulegan heildartoll ESB á innflutning frá Bandaríkjunum, bendir Jørn Fredsgaard frá Eifo á.
„Við verðum að muna eftir óbeinum innflutningi. Það er þegar vörur eru fluttar inn beint frá Þýskalandi eða Bretlandi, en þar eru undirhlutar og efni upprunnin í Bandaríkjunum. Þetta er mjög hátt hlutfall. Þannig að Bandaríkin eru samt næststærsti innflutningsmarkaðurinn okkar, hvernig sem á það er litið,“ segir yfirmaður Fredsgaard.