Dönsk stjórnvöld vinna nú að breytingum á skattlagningu rafbíla í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að yfirvofandi skattahækkanir kveði niður nýlega vaxandi áhuga á rafbílavæðingu.
Samkvæmt núgildandi lögum eiga afslættir af skráningarskatti rafbíla og tengiltvinnbíla að hverfa stig af stigi til ársins 2035.
Ákvörðun um það var tekin árið 2020 í samkomulagi Jafnaðarmanna, Radikale Venstre, SF og Enhedslisten um græna umbreytingu vegasamgangna. Með fjárlögum 2024 var þó ákveðið að fresta fyrirhuguðum hækkunum í bæði 2024 og 2025.
Nú er hins vegar ljóst að verulegar skattahækkanir á rafbíla taka gildi árið 2026, verði engar breytingar gerðar á kerfinu.
Með fjárlögum ársins 2024 var hins vegar ákveðið að fresta hækkunum til loka árs 2025. Ef ekkert breytist, munu verulegar skattahækkanir taka gildi frá árinu 2026, samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen.
Skattamálaráðherra Danmerkur, Rasmus Stoklund, hefur lýst yfir áhyggjum af því að hækkunin árið 2026 verði of brött, einkum fyrir kaupendur ódýrari rafbíla.
„Ég er sammála þeirri gagnrýni að breytingin í átt að hærri sköttum árið 2026 sé of mikill,“ sagði Stoklund við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 í janúar.
Miklar skattahækkanir á döfinni
Samkvæmt útreikningum danska bifreiðaeigendafélagsins FDM mun Audi Q4 e-tron, sem kostar 400.000 danskar krónur í dag, hækka um 28.000 krónur í skráningarskatti árið 2026.
Um er að ræða hækkun upp á 550 þúsund íslenskar krónur.
Ef gildandi skattakerfi helst óbreytt, gæti sami bíll verið með 150.000 dönskum krónum hærri skatt árið 2030.
Enn meiri áhrif verða á dýrari rafbíla, til að mynda gæti Volvo EX90, sem í dag kostar 1 milljón danskra króna, orðið allt að 400.000 krónum dýrari árið 2030 en hann verður árið 2025.
Endurskoðun er í gangi
Vegna þess að ekki hefur tekist að útvega fjárheimildir úr ríkissjóði til að mæta hækkunum með niðurfellingu skatta skoða dönsk stjórnvöld nú hvernig hægt sé að endurskipuleggja skattakerfið á sjálfbæran hátt.
Í stað þess að afnema skatta, er nú rætt um að færa byrðina til og tryggja jafnframt áframhaldandi aðgengi að rafbílum.
1. Færsla frá skráningarskatti til rekstrarskatts
Einfaldasta leiðin sem rætt hefur verið um er að lækka skráningarskatt við kaup, en í staðinn hækka reglulegan eigendaskatt. Eigendur rafbíla myndu þá greiða minni upphæð við kaupin, en standa undir hærri kostnaði yfir notkunartímann.
Til að mynda er áætlað að eigendaskattur verði 420 danskar krónur tvisvar á ári árið 2025 og hækki í 460 krónur árið 2026.
Samkvæmt útreikningum FDM myndi það þýða að kaupandi Audi Q4 e-tron næsta ár sleppur við 28.000 króna aukaskatt við kaup, en greiðir í staðinn um 1.800 krónur meira á ári í eigendaskatt næstu 15 ár.
„Okkur líst vel á þessa hugmynd,“ skrifar Ilyas Dogru, hagfræðingur FDM, og bætir við:
„Að færa skattlagningu frá kaupum til notkunar er skynsamlegri nálgun sem hefur áhrif á bæði bílaval og neysluhegðun.“
Hins vegar sé enn óljóst hvernig núverandi eigendur rafbíla verði meðhöndlaðir í slíku kerfi.
2. Þyngdartengd skattlagning
Stjórnvöld íhuga einnig að endurvekja kerfi sem var við lýði fram til ársins 1997, þar sem skattlagning miðast við þyngd ökutækis. Rökstuðningurinn er sá að þyngri rafbílar valdi meira vegsliti og beri hærri ytri kostnað. Til dæmis valdi Hongqi-jeppi sem vegur 2,7 tonn meiri skaða en Volkswagen ID.3 sem vegur 1,7 tonn.
Andstæðingar þessarar leiðar vara þó við því að hún kunni að verða lituð af pólitískum hugmyndum um „öfundarskatt“ á stór og dýr ökutæki.
3. Kílómetragjöld eftir svæðum
Loks hefur komið til umræðu að innleiða veggjaldakerfi þar sem gjald miðast við fjölda ekinna kílómetra og staðsetningu. Slíkt kerfi myndi fela í sér að ekinn kílómetrafjöldi í Kaupmannahöfn eða Árósum yrði skattlagður hærra en sambærilegur akstur í dreifðari byggðum.
Ekki hefur þó tekist að ná pólitískri samstöðu um þessa nálgun. Þar að auki er tæknileg útfærsla kerfisins tímafrek og dýr, þar sem nauðsynlegt væri að þróa nýtt IT-kerfi fyrir skattsöfnun. Af þeim sökum er horft til ársins 2030 fyrir mögulega innleiðingu.
Rasmus Stoklund hefur gefið út að viðræður við aðra stjórnmálaflokka muni hefjast síðar á árinu.
Markmið ríkisstjórnarinnar er að tryggja að minni og ódýrari rafbílar haldist áfram aðgengilegir fyrir alla Dani, óháð tekjum og búsetu, en að breytingarnar verði samt sem áður fjárhagslega ábyrgðarfullar og sjálfbærar fyrir ríkissjóð.
Eitt virðist þó öruggt: Það verða breytingar en engin þeirra verður innleidd í bráð.
Þar til þá bíða danskir neytendur og rafbílaframleiðendur eftir því hvort stjórnvöld nái að finna jafnvægi milli markaðshvatningar, grænna markmiða og ríkisfjármála.