Dönsk stjórn­völd vinna nú að breytingum á skatt­lagningu raf­bíla í þeim til­gangi að koma í veg fyrir að yfir­vofandi skatta­hækkanir kveði niður ný­lega vaxandi áhuga á raf­bíla­væðingu.

Sam­kvæmt nú­gildandi lögum eiga af­slættir af skráningar­skatti raf­bíla og ten­gilt­vinn­bíla að hverfa stig af stigi til ársins 2035.

Ákvörðun um það var tekin árið 2020 í samkomulagi Jafnaðarmanna, Radikale Venstre, SF og Enhedslisten um græna umbreytingu vegasamgangna. Með fjárlögum 2024 var þó ákveðið að fresta fyrirhuguðum hækkunum í bæði 2024 og 2025.

Nú er hins vegar ljóst að verulegar skattahækkanir á rafbíla taka gildi árið 2026, verði engar breytingar gerðar á kerfinu.

Með fjár­lögum ársins 2024 var hins vegar ákveðið að fresta hækkunum til loka árs 2025. Ef ekkert breytist, munu veru­legar skatta­hækkanir taka gildi frá árinu 2026, samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen.

Skatta­málaráðherra Dan­merkur, Rasmus Stok­lund, hefur lýst yfir áhyggjum af því að hækkunin árið 2026 verði of brött, einkum fyrir kaup­endur ódýrari raf­bíla.

„Ég er sammála þeirri gagn­rýni að breytingin í átt að hærri sköttum árið 2026 sé of mikill,“ sagði Stok­lund við dönsku sjón­varps­stöðina TV2 í janúar.

Miklar skatta­hækkanir á döfinni

Sam­kvæmt út­reikningum danska bif­reiða­eig­enda­félagsins FDM mun Audi Q4 e-tron, sem kostar 400.000 danskar krónur í dag, hækka um 28.000 krónur í skráningar­skatti árið 2026.

Um er að ræða hækkun upp á 550 þúsund ís­lenskar krónur.

Ef gildandi skattakerfi helst óbreytt, gæti sami bíll verið með 150.000 dönskum krónum hærri skatt árið 2030.

Enn meiri áhrif verða á dýrari rafbíla, til að mynda gæti Volvo EX90, sem í dag kostar 1 milljón danskra króna, orðið allt að 400.000 krónum dýrari árið 2030 en hann verður árið 2025.

Endur­skoðun er í gangi

Vegna þess að ekki hefur tekist að út­vega fjár­heimildir úr ríkis­sjóði til að mæta hækkunum með niður­fellingu skatta skoða dönsk stjórn­völd nú hvernig hægt sé að endur­skipu­leggja skatta­kerfið á sjálf­bæran hátt.

Í stað þess að af­nema skatta, er nú rætt um að færa byrðina til og tryggja jafn­framt áfram­haldandi að­gengi að raf­bílum.

1. Færsla frá skráningar­skatti til rekstrar­skatts

Ein­faldasta leiðin sem rætt hefur verið um er að lækka skráningar­skatt við kaup, en í staðinn hækka reglu­legan eig­enda­skatt. Eig­endur raf­bíla myndu þá greiða minni upp­hæð við kaupin, en standa undir hærri kostnaði yfir notkunar­tímann.

Til að mynda er áætlað að eig­enda­skattur verði 420 danskar krónur tvisvar á ári árið 2025 og hækki í 460 krónur árið 2026.

Sam­kvæmt út­reikningum FDM myndi það þýða að kaupandi Audi Q4 e-tron næsta ár sleppur við 28.000 króna auka­skatt við kaup, en greiðir í staðinn um 1.800 krónur meira á ári í eig­enda­skatt næstu 15 ár.

„Okkur líst vel á þessa hug­mynd,“ skrifar Ilyas Dogru, ­hag­fræðingur FDM, og bætir við:

„Að færa skatt­lagningu frá kaupum til notkunar er skyn­sam­legri nálgun sem hefur áhrif á bæði bíla­val og neyslu­hegðun.“

Hins vegar sé enn óljóst hvernig núverandi eig­endur raf­bíla verði meðhönd­laðir í slíku kerfi.

2. Þyngdar­tengd skatt­lagning

Stjórn­völd íhuga einnig að endur­vekja kerfi sem var við lýði fram til ársins 1997, þar sem skatt­lagning miðast við þyngd ökutækis. Rökstuðningurinn er sá að þyngri raf­bílar valdi meira vegsliti og beri hærri ytri kostnað. Til dæmis valdi Hongqi-jeppi sem vegur 2,7 tonn meiri skaða en Volkswa­gen ID.3 sem vegur 1,7 tonn.

And­stæðingar þessarar leiðar vara þó við því að hún kunni að verða lituð af pólitískum hug­myndum um „öfundar­skatt“ á stór og dýr ökutæki.

3. Kíló­metra­gjöld eftir svæðum

Loks hefur komið til um­ræðu að inn­leiða veg­gjalda­kerfi þar sem gjald miðast við fjölda ekinna kíló­metra og stað­setningu. Slíkt kerfi myndi fela í sér að ekinn kíló­metra­fjöldi í Kaup­manna­höfn eða Ár­ósum yrði skatt­lagður hærra en sam­bæri­legur akstur í dreifðari byggðum.

Ekki hefur þó tekist að ná pólitískri sam­stöðu um þessa nálgun. Þar að auki er tækni­leg út­færsla kerfisins tíma­frek og dýr, þar sem nauð­syn­legt væri að þróa nýtt IT-kerfi fyrir skattsöfnun. Af þeim sökum er horft til ársins 2030 fyrir mögu­lega inn­leiðingu.

Rasmus Stok­lund hefur gefið út að viðræður við aðra stjórn­mála­flokka muni hefjast síðar á árinu.

Mark­mið ríkis­stjórnarinnar er að tryggja að minni og ódýrari raf­bílar haldist áfram að­gengi­legir fyrir alla Dani, óháð tekjum og bú­setu, en að breytingarnar verði samt sem áður fjár­hags­lega ábyrgðar­fullar og sjálf­bærar fyrir ríkis­sjóð.

Eitt virðist þó öruggt: Það verða breytingar en engin þeirra verður inn­leidd í bráð.

Þar til þá bíða danskir neyt­endur og raf­bíla­fram­leiðendur eftir því hvort stjórn­völd nái að finna jafn­vægi milli markaðs­hvatningar, grænna mark­miða og ríkis­fjár­mála.