Dönsk stjórnvöld hyggjast auka framlög til varnarmála vegna breyttrar stöðu í alþjóðamálum.

Samkvæmt upplýsingum frá Børsen hyggst ríkisstjórnin verja 25 milljörðum danskra króna á þessu ári og 25 milljörðum til viðbótar á næsta ári, sem telur samtals um 984 milljarða íslenskra króna.

Danir hafa verið að spyrja sig, hvaðan peningarnir koma?

Efnahagsleg staða Danmerkur er sterk, og bæði á þessu ári og því næsta er gert ráð fyrir afgangi af fjárlögum.

Með því að leyfa fjárlagaafganginum að minnka í 0,5% af landsframleiðslu mætti losa um 34 milljarða danskra króna, um 665 milljarða íslenskra króna á þessu ári og 28 milljarða DKK eða um 547 milljarða íslenskra króna á næsta ári. Þetta er útreikningur bæði Cepos og Viðskiptaráðs dönsku verkalýðshreyfingarinnar.

„Danmörk er með ótrúlega sterkan efnahag. Í raun þurfum við ekki einu sinni að taka lán til að fjármagna þessi útgjöld. Við gætum einfaldlega tekið peninginn úr eignum ríkisins,“ segir Sofie Holme Andersen, aðalhagfræðingur hjá Viðskiptaráði dönsku verkalýðshreyfingarinnar.

Þessi einfalda leið er talin vera fremur áhættulítil fyrir Dani þar sem rekstur ríkissjóðs hefur verið með ágætu móti.

Í stað þess að halda áfram að skila miklum afgangi í ríkisrekstri gæti stjórnin minnkað hann tímabundið með því að auka útgjöld, í þessu tilviki til varnarmála.

Í dag er stefna Dana sú að reka fjárlögin með afgangi eða í mesta lagi 0,5% halla af landsframleiðslu.

Ef stjórnin breytir þessu marki tímabundið, líkt og hún gerði í COVID-faraldrinum, getur hún fljótt losað um stórar fjárhæðir án þess að hækka skatta eða taka ný lán.

Þar sem Danmörk er með sterkan efnahag og lágar skuldir er áhættan talin lítil, sérstaklega ef um er að ræða einskiptisútgjöld. Með þessu er ekki verið að búa til nýjar tekjur, heldur aðeins að færa útgjöldin fram í tíma með því að nýta svigrúmið sem er til staðar í fjárlögunum.

Dönsk stjórnvöld hafa áður nýtt þetta svigrúm þegar þörf hefur verið á skyndilegum fjárveitingum.

Síðast var fjárlögum breytt með þessum hætti í heimsfaraldrinum árið 2020, þegar Nicolai Wammen fjármálaráðherra losaði 21 milljarð danskra króna með því að heimila hærri halla á fjárlögum.

Síðan þá hefur fjárlagalögunum verið breytt, og nú má halla ríkisfjármálum um allt að 1% af landsframleiðslu.

Gagnrýni á skammtímalausnir

Þrátt fyrir þennan sveigjanleika telja sumir hagfræðingar að finna þurfi varanlegri lausnir til að fjármagna aukin útgjöld til varnarmála.

„Við erum að tala um tímabundin útgjöld, en ég á erfitt með að sjá að ekki verði þörf á frekari fjárveitingum í framtíðinni. Þannig er þetta í raun að fresta vandanum,“ segir Niklas Praefke, hagfræðingur hjá Cepos.

Sofie Holme Andersen er aftur á móti ekki áhyggjufull.

„Við getum alltaf búið til fræðileg vandamál, en í raun skiptir þetta ekki miklu máli. Í framkvæmd verður líklega tekið lán, en vextirnir eru afar lágir vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs.“

Langtímaplan enn í vinnslu

Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra telja að gera þurfi langtímaáætlun sem tekur mið af auknum útgjöldum til varnarmála, loftslagsmála og mögulegra skuldbindinga gagnvart ESB.

„Við getum ekki litið á þetta sem tímabundinn kostnað eða eitthvað sem hverfur. Við lifum á tímum breytinga, og það er að verða nýtt eðlilegt ástand,“ sagði Løkke Rasmussen í samtali við Børsen fyrr í febrúar.

Stjórnvöld vinna nú að slíkri áætlun, en enn hefur ekki verið tilkynnt hvenær hún verður kynnt.