Danska lyfjafyrirtækið Lundbeck hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé bandaríska lyfjafyrirtækisins American Longboard Pharmaceuticals
Samkvæmt viðskiptamiðlinumBørsen er kaupverðið 17 milljarðar danskra króna eða um 340 milljarðar íslenskra króna.
Lundbeck er að borga um 60 dali á hvern hlut sem er um 77% yfir dagslokagengi félagsins síðastliðna þrjátíu daga.
Samkvæmt tilkynningu félagsins til dönsku kauphallarinnar eignast Lundbeck einkaleyfi á flogveikilyfjum bandaríska félagsins.
Charl van Zyl, forstjóri Lundbeck, sagði í ágústmánuði að félagið væri í viðræðum á mörgum vígstöðum um mögulegar yfirtökur en félagið sjái fyrir sér frekari vöxt með yfirtökum og samrunum.
Einkaleyfi Lundbeck á fjölmörgum lyfjum rennur út undir lok áratugarins og hefur félagið verið að bregðast við því.
Áætlað er að flogaveikislyf bandaríska félagsins verði komið á markað árið 2028, rúmu ári áður en einkaleyfi Lundbeck á Rexulti rennur út. Lundbeck áætlar að tekjur af flogaveikislyfjunum geti náð allt að 13 milljörðum danskra króna á ársgrundvelli.
„Þessi viðskipti mynda hornsteininn í lyfjaframleiðslu félagsins fyrir sjaldgæfa taugasjúkdóma og hefur möguleikann á að ýta undir vöxt félagsins næsta áratuginn,“ segir Charl van Zyl í kauphallartilkynningu.
Kaupin eru fjármögnuð með handbæru fé og tiltækum lánalínum og tekur félagið engin ný lán til fjármagna kaupin.