Danska ríkisstjórnin mun kynna á blaðamannafundi í hádeginu í dag fleiri en 40 skattabreytingar til að ýta undir frumkvöðlastarfsemi í Danmörku.
Samkvæmt Børsen verður skattur á söluhagnað hlutabréfa lækkaður en skattar í Danmörku eru með þeim hæstu í heimi.
Eftir breytinguna munu Danir borga 27% skatt af söluhagnaði á fyrstu 80 þúsund dönsku krónunum, sem samsvarar um 1,6 milljón íslenskum krónum. Danska ríkið tekur síðan 42% af öllum hagnaði eftir það.
Mun það vera um þriðjungshækkun þar sem þakið var í 61 þúsund dönskum krónum. Hjón borga 27% skatt af söluhagnaði á fyrstu 160 þúsund dönsku krónunum.
Heildaráætlun ríkisstjórnarinnar er sögð kosta um 2,1 milljarð danskra króna á árunum 2024 til 2026, sem samsvarar um 43 milljörðum íslenskra króna.
Um 750 milljónir danskra króna fara beint í skattaafslætti fyrir frumkvöðlastarfsemi.
Samkvæmt fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar eru Danir einnig að afnema fjármagnstekjuskatt á arðgreiðslur af eignum óskráðra félaga.
Þá er yfirfæranlegt rekstrartap hækkað úr 9,5 milljónum danskra króna í 20 milljónir danskra króna, svo dæmi séu tekin.
„Danskir frumkvöðlar eru að standa sig vel og við verðum að tryggja þeim enn betri tækifæri til að stofna fleiri fyrirtæki svo þeir geti hjálpað Danmörku að vaxa,“ segir Morten Bødskov viðskiptamálaráðherra í fréttatilkynningu.