Danskir neytendur eru farnir að sniðganga Coca-Cola í landinu til að mótmæla utanríkisstefnu Donalds Trumps. Þetta kemur fram á vef FT en þar er vitnað í upplýsingar frá Carlsberg.

Jacob Aarup-Anderson, forstóri Carlsberg, segir að fyrirtækið hafi séð mikinn samdrátt í sölu Coca-Cola í Danmörku og að neytendur séu augljóslega að sniðganga vörurnar. Hann bætir við að Danmörk sé eini markaðurinn þar sem fyrirtækið sér samdráttinn í miklum mæli.

Ítrekaðar hótanir Bandaríkjaforseta um að hertaka Grænland hafa reitt marga Dani til reiði. Varaforsetinn JD Vance sagði að Danir væru slæmir bandamenn, þrátt fyrir að hafa staðið við hlið Bandaríkjamanna og barist með þeim í Afganistan og víðar.

„Danir eru reiðir. Þeir muna enn eftir líkum danskra hermanna þegar þeir komu heim og nú finnst eins og það sé verið að vanvirða Danmörku. Þið getið því séð hvers vegna kröfur um að sniðganga bandarískar vörur njóta mikilla vinsælda,“ sagði danskur embættismaður í samtali við FT í síðasta mánuði.