Danska ríkið hefur náð samkomulagi um að kaupa 59,4% hlut í Kaupmannahafnarflugvelli - sem er gjarnan kallaður Kastrupflugvöllur - fyrir 32 milljarða danskra króna, eða sem nemur ríflega 625 milljörðum íslenskra króna.
Ríkið átti fyrir 39,2% hlut í flugvellinum og eignast þar með 98,6% hlut. Fjármálaráðuneyti Danmerkur segir í tilkynningu að samkomulagið feli í sér að til lengri tíma verði horft til þess að minnka eignarhlutinn niður í 50,1%.
Kaupmannaflugvöllur er skráður á danska hlutabréfamarkaðinn. Hlutabréf flugvallarins hafa hækkað um tæplega helming í dag.
Seljandinn er ATP, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, og kanadíski lífeyrissjóðurinn OTPP. ATP varð stærsti hluthafi flugvallarins árið 2017, þegar sjóðurinn ásamt OTPP, keyptu hlut ástralska eignastýringarfélagsins Macquarie Group.
Í umfjöllun viðskiptamiðilsins Børsen segir að ATP hafi fengið gagnrýni á sig á undanförnum árum fyrir laka ávöxtun og nokkurra misheppnaða fjárfestinga, þar á meðal í rafhlöðufyrirtækinu Northvolt. Frá árinu 2017 hefur hlutabréfaverð flugvallarins lækkað um 35% ef horft er fram hjá hækkuninni í morgun.