Þrír stærstu bankar Danmerkur, Nordea, Nykredit og Jyske Bank, hafa á undanförnum misserum unnið dómsmál eða náð fram málalokum sem snúa að umdeildum vaxtaskiptasamningum sem þeir gerðu við fjölda danskra fyrirtækja í kringum fjármálakreppuna 2008 og árin á eftir.
Málin, sem í sumum tilvikum snúast um hundruð milljóna danskra króna, hefðu að óbreyttu getað leitt til fjölda skaðabótamála með miklum fjárhagslegum afleiðingum fyrir bankana.
Þótt bankarnir hafi haft betur í flestum málum hefur aðalatriðið, hvernig eigi réttilega að reikna markaðsvirði samningana, enn ekki verið tekið fyrir af Hæstarétti.
Í meginatriðum snýst ágreiningurinn um hvernig markaðsvirði vaxtaskiptasamninga, svonefndra interest rate swaps, er reiknað út þegar viðskiptavinir óska eftir að leysa þá út fyrir gjalddaga.
Vaxtaskiptasamningar eru langtímasamningar þar sem tveir aðilar skipta á vaxtagreiðslum: einn greiðir fasta vexti og hinn breytilega (t.d. tengda markaðsvöxtum). Þetta er gert til að verja sig gegn vaxtasveiflum sem getur gagnast t.d. fyrirtækjum sem hafa tekið lán með breytilegum vöxtum en vilja festa vextina með slíkum samningi.
Markaðsvirði samningsins getur sveiflast yfir líftíma hans, eftir því hvernig markaðsvextir þróast.
Ef vextir lækka mikið (eins og gerðist eftir fjármálakreppuna 2008) getur samningurinn orðið mjög óhagstæður þeim sem greiðir fasta vexti enda skuldbundinn til að greiða hærri vexti en markaðurinn býður.
Í slíkum tilvikum getur viðskiptavinur óskað eftir að rifta samningnum fyrir gjalddaga, þ.e. áður en hann rennur út.
Umdeild reikniaðferð og tugmilljarða tap
Samkvæmt dómum og gögnum sem Børsen hefur kynnt sér telja margir viðskiptavinir að bankarnir hafi reiknað þetta virði með þeim hætti að það hafi verið þeim sjálfum í hag – en kostnaðarsamt og oft fjárhagslega glötun fyrir viðskiptavinina.
Í aðdraganda og kjölfar fjármálakreppunnar 2008 seldu danskir bankar fjölda fyrirtækja og landbúnaðaraðila svokallaða vaxtaskiptasamninga. Með þeim áttu fyrirtækin að verja sig gegn hækkandi vöxtum með því að festa vexti á hluta lána sinna.
Þegar vextir lækkuðu í stað þess að hækka snérust samningarnir mörgum í óhag. Vildu fyrirtæki leysa samningana út þurftu þau að greiða háar fjárhæðir sem reiknaðar voru út frá markaðsvirði samninganna – og þar hófst ágreiningurinn.
Deilan snýst að því að bankarnir beittu aðferð sem tekur ekki tillit til kostnaðar- og áhættuþátta við mat á markaðsvirði, svonefndra XVA-liða (eiginfjárbinding, fjármögnunarkostnaður og lánshæfismat).
Viðskiptavinir hafa haldið því fram að ef þessir þættir væru teknir með í reikninginn væri niðurstaðan hagstæðari.
Stór mál dregin til baka
Í mars 2024 ákvað fjölskylda Lerche-Simonsen, sem rekur stórt svínabú, að hætta við mál gegn Nordea þar sem krafist var 50,2 milljóna danskra króna vegna fimm vaxtaskiptasamninga tengdum 185 milljóna láni. Samkvæmt fjölskyldunni nam heildartap þeirra 91,8 milljónum danskra króna.
Í yfirlýsingu til Børsen sagði Gitte Lerche-Simonsen:
„Eftir fjögurra ára málaferli gegn Nordea höfum við ákveðið að hætta við málið á meðan fjölskyldan er enn greiðsluhæf.“
Einnig hefur Bregentved-sjóðurinn, sem rekur Bregentved-garðinn á Sjálandi, tapað dómsmáli gegn Nykredit. Þar taldi sjóðstjóri – greifi Christian Moltke – bankann hafa haft af sér 42 milljónir króna við einhliða uppsögn vaxtaskiptasamnings árið 2017. Sjóðurinn tapaði í bæði borgardómi og Eystri Landsrétti, og beiðni um að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti var hafnað í nóvember 2023.
Í desember dró svo Mogens Jørgensen, fyrrverandi eigandi stærsta lífræna bús Danmerkur, Vibygård, mál sitt til baka gegn Jyske Bank. Þar taldi hann bankann hafa lagt óeðlilega háa 52 milljóna króna skuld á búið vegna tveggja vaxtaskiptasamninga – skuld sem hann gat ekki staðið undir og sem leiddi til gjaldþrots.
Þrátt fyrir að bankarnir hafi hlotið dómssigra í þessum málum hefur aldrei verið dæmt efnislega um það hvort reikniaðferðin, með hliðsjón af XVA-kostnaði, sé réttmæt.
Lögmaður Bregentved-sjóðsins, Philip Thorsen, segir að Eystri Landsréttur hafi einungis dæmt að ekki hafi verið sannað að aðferð bankans væri röng en ekki tekið afstöðu til þess hvort önnur aðferð gæti talist rétt.
Von um fordæmi í máli við Danske Bank
Fordæmisgefandi dómur gæti þó verið á leiðinni í máli sem Copenhagen International School Property Foundation rekur gegn Danske Bank.
Þar er deilt um yfir 100 milljónir danskra króna sem skólinn þurfti að greiða til að leysa út vaxtaskiptasamning sem tengdist 500 milljóna danskra króna fjármögnun á nýju skólahúsnæði í Kaupmannahöfn.
Skólinn krefst um 40 milljóna danskra króna í bætur. Danske Bank hefur fengið því framgengt að málið færist úr borgardómi yfir í Eystri Landsréttur, með þeirri röksemd að niðurstaða málsins gæti haft „víðtæk áhrif á bankann sjálfan og aðra danska banka“.
Að minnsta kosti fimm önnur mál eru í vinnslu. Þar á meðal er Vejle Idrætshøjskole, sem krefst 5,2 milljóna danskra króna frá Jyske Bank vegna uppgjörs á vaxtaskiptasamningi árið 2018.
Samkvæmt skólastjóra er nú verið að semja um val á sérfræðingi til að meta á forsendur málsins.
Þrátt fyrir stóra sigra á neðri dómstigum situr kjarnaspurningin enn og bíða Danir enn eftir því að fá formlega úrslausn um aðferðafræði við útreikning vaxtaskiptasamninga frá Hæstarétti.
Samkvæmt Børsen ríkir því enn óvissa sem hefur hvílt á kerfinu áratugum saman en gæti á örskömmum tíma kallað yfir sig umtalsverðar breytingar, verði viðurkennd önnur leið við mat á markaðsvirði.