Þrír stærstu bankar Dan­merkur, Nor­dea, Nykredit og Jyske Bank, hafa á undan­förnum misserum unnið dóms­mál eða náð fram mála­lokum sem snúa að um­deildum vaxta­skipta­samningum sem þeir gerðu við fjölda danskra fyrir­tækja í kringum fjár­mála­kreppuna 2008 og árin á eftir.

Málin, sem í sumum til­vikum snúast um hundruð milljóna danskra króna, hefðu að óbreyttu getað leitt til fjölda skaða­bóta­mála með miklum fjár­hags­legum af­leiðingum fyrir bankana.

Þótt bankarnir hafi haft betur í flestum málum hefur aðal­at­riðið, hvernig eigi rétti­lega að reikna markaðsvirði samningana, enn ekki verið tekið fyrir af Hæstarétti.

Í megin­at­riðum snýst ágreiningurinn um hvernig markaðsvirði vaxta­skipta­samninga, svo­nefndra interest rate swaps, er reiknað út þegar við­skipta­vinir óska eftir að leysa þá út fyrir gjald­daga.

Vaxta­skipta­samningar eru langtíma­samningar þar sem tveir aðilar skipta á vaxta­greiðslum: einn greiðir fasta vexti og hinn breyti­lega (t.d. tengda markaðsvöxtum). Þetta er gert til að verja sig gegn vaxta­sveiflum sem getur gagnast t.d. fyrir­tækjum sem hafa tekið lán með breyti­legum vöxtum en vilja festa vextina með slíkum samningi.

Markaðsvirði samningsins getur sveiflast yfir líftíma hans, eftir því hvernig markaðsvextir þróast.

Ef vextir lækka mikið (eins og gerðist eftir fjár­mála­kreppuna 2008) getur samningurinn orðið mjög óhagstæður þeim sem greiðir fasta vexti enda skuld­bundinn til að greiða hærri vexti en markaðurinn býður.

Í slíkum til­vikum getur við­skipta­vinur óskað eftir að rifta samningnum fyrir gjald­daga, þ.e. áður en hann rennur út.

Umdeild reikniaðferð og tugmilljarða tap

Sam­kvæmt dómum og gögnum sem Børsen hefur kynnt sér telja margir við­skipta­vinir að bankarnir hafi reiknað þetta virði með þeim hætti að það hafi verið þeim sjálfum í hag – en kostnaðar­samt og oft fjár­hags­lega glötun fyrir við­skipta­vinina.

Í að­draganda og kjölfar fjár­mála­kreppunnar 2008 seldu danskir bankar fjölda fyrir­tækja og land­búnaðaraðila svo­kallaða vaxta­skipta­samninga. Með þeim áttu fyrir­tækin að verja sig gegn hækkandi vöxtum með því að festa vexti á hluta lána sinna.

Þegar vextir lækkuðu í stað þess að hækka snérust samningarnir mörgum í óhag. Vildu fyrir­tæki leysa samningana út þurftu þau að greiða háar fjár­hæðir sem reiknaðar voru út frá markaðsvirði samninganna – og þar hófst ágreiningurinn.

Deilan snýst að því að bankarnir beittu að­ferð sem tekur ekki til­lit til kostnaðar- og áhættuþátta við mat á markaðsvirði, svo­nefndra XVA-liða (eigin­fjár­binding, fjár­mögnunar­kostnaður og láns­hæfis­mat).

Við­skipta­vinir hafa haldið því fram að ef þessir þættir væru teknir með í reikninginn væri niður­staðan hagstæðari.

Stór mál dregin til baka

Í mars 2024 ákvað fjöl­skylda Lerche-Simon­sen, sem rekur stórt svína­bú, að hætta við mál gegn Nor­dea þar sem krafist var 50,2 milljóna danskra króna vegna fimm vaxta­skipta­samninga tengdum 185 milljóna láni. Sam­kvæmt fjöl­skyldunni nam heildar­tap þeirra 91,8 milljónum danskra króna.

Í yfir­lýsingu til Børsen sagði Gitte Lerche-Simon­sen:

„Eftir fjögurra ára mála­ferli gegn Nor­dea höfum við ákveðið að hætta við málið á meðan fjöl­skyldan er enn greiðslu­hæf.“

Einnig hefur Bregent­ved-sjóðurinn, sem rekur Bregent­ved-garðinn á Sjálandi, tapað dóms­máli gegn Nykredit. Þar taldi sjóð­stjóri – greifi Christian Moltke – bankann hafa haft af sér 42 milljónir króna við ein­hliða upp­sögn vaxta­skipta­samnings árið 2017. Sjóðurinn tapaði í bæði borgar­dómi og Eystri Landsrétti, og beiðni um að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti var hafnað í nóvember 2023.

Í desember dró svo Mogens Jørgen­sen, fyrr­verandi eig­andi stærsta lífræna bús Dan­merkur, Vibygård, mál sitt til baka gegn Jyske Bank. Þar taldi hann bankann hafa lagt óeðli­lega háa 52 milljóna króna skuld á búið vegna tveggja vaxta­skipta­samninga – skuld sem hann gat ekki staðið undir og sem leiddi til gjaldþrots.

Þrátt fyrir að bankarnir hafi hlotið dóms­sigra í þessum málum hefur aldrei verið dæmt efnis­lega um það hvort reikniað­ferðin, með hlið­sjón af XVA-kostnaði, sé rétt­mæt.

Lög­maður Bregent­ved-sjóðsins, Philip Thor­sen, segir að Eystri Landsréttur hafi einungis dæmt að ekki hafi verið sannað að að­ferð bankans væri röng en ekki tekið af­stöðu til þess hvort önnur að­ferð gæti talist rétt.

Von um for­dæmi í máli við Danske Bank

For­dæmis­gefandi dómur gæti þó verið á leiðinni í máli sem Copen­hagen International School Proper­ty Founda­tion rekur gegn Danske Bank.

Þar er deilt um yfir 100 milljónir danskra króna sem skólinn þurfti að greiða til að leysa út vaxta­skipta­samning sem tengdist 500 milljóna danskra króna fjár­mögnun á nýju skóla­húsnæði í Kaup­manna­höfn.

Skólinn krefst um 40 milljóna danskra króna í bætur. Danske Bank hefur fengið því fram­gengt að málið færist úr borgar­dómi yfir í Eystri Landsréttur, með þeirri rök­semd að niður­staða málsins gæti haft „víðtæk áhrif á bankann sjálfan og aðra danska banka“.

Að minnsta kosti fimm önnur mál eru í vinnslu. Þar á meðal er Vej­le Idrætshøjskole, sem krefst 5,2 milljóna danskra króna frá Jyske Bank vegna upp­gjörs á vaxta­skipta­samningi árið 2018.

Sam­kvæmt skóla­stjóra er nú verið að semja um val á sér­fræðingi til að meta á for­sendur málsins.

Þrátt fyrir stóra sigra á neðri dóm­stigum situr kjarna­spurningin enn og bíða Danir enn eftir því að fá form­lega úrs­lausn um að­ferðafræði við út­reikning vaxta­skipta­samninga frá Hæstarétti.

Sam­kvæmt Børsen ríkir því enn óvissa sem hefur hvílt á kerfinu ára­tugum saman en gæti á ör­skömmum tíma kallað yfir sig um­tals­verðar breytingar, verði viður­kennd önnur leið við mat á markaðsvirði.