Í fyrsta sinn í sögu Danmerkur hefur fyrrverandi bankastjóri hlotið dóm fyrir brot á lögum um peningaþvætti.
Dómurinn féll í Kaupmannahöfn í dag er Bo Stengaard, fyrrverandi forstjóri Københavns Andelskasse, játaði brot á lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Milljarðar runnu í gegnum bankann
Samkvæmt rannsóknardeild dönsku lögreglunnar, NSK, lét bankinn millifærslur upp á 3,2 milljarða danskra króna frá áhættusömum erlendum viðskiptavinum á tímabilinu 2017–2018 fara í gegn án þess að kanna tilefni viðskiptanna eða tilkynna þau til yfirvalda.
Þá hafði bankinn ekki stjórn á því hverjir væru raunverulegir eigendur þriggja stærstu erlendu viðskiptavina hans, sem stóðu undir 80–90% af öllum erlendum fjármagnshreyfingum bankans.
Bo Stengaard var ekki ákærður fyrir peningaþvættið sjálft heldur fyrir brjóta á reglum um eftirlit og tilkynningaskyldu.
Þrátt fyrir að breytingar á lögum í dag heimili allt að tveggja ára fangelsi átti háttsemi Stengaards sér stað fyrir lagabreytinguna þegar refsiramminn var aðeins sex mánuðir.
Dómari dæmdi hann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi, þar sem tekið var mið af játningu, hreinu sakaferli og tímanum sem er liðinn frá brotunum.
Algjört stjórnleysi innan bankans
Fyrir dómi lýsti Stengaard því að hann hefði ekki áttað sig á umfangi vandans þegar hann tók við starfi árið 2016.
„Ég hélt að vandamálin væru bundin við útlánadeildina, en þau voru alls staðar. Þetta var ein stór óreiðuverksmiðja.“
Þrátt fyrir þessa lýsingu tók hann afdráttarlausa ábyrgð á brotum sínum:
„Ef maður hefur gert eitthvað sem maður átti ekki að gera, eða látið undir höfuð leggjast að grípa til aðgerða, þá ber að axla ábyrgð. Sama hversu óþægilegt það kann að vera.“
Dómurinn markar tímamót
Linda Nielsen, lagaprófessor við Háskólann í Kaupmannahöfn og fyrrverandi formaður starfshóps fjármálageirans um baráttu gegn peningaþvætti, lýsti dómnum sem tímamótum.
„Við höfum áður séð ákærur á hendur stjórnendum í bönkum, en þetta er í fyrsta skipti sem einhver er dæmdur fyrir brot á peningaþvættislögum.“
Hingað til hafa málsmeðferðir vegna peningaþvættis aðallega beinst að lögaðilum en ekki einstaklingum.
Þannig fékk Danske Bank áður 15 milljarða króna sekt, án þess að stjórnendur væru sakfelldir.
Alvarleg kerfisbundin vanræksla
Úttekt KPMG árið 2018 leiddi í ljós að bankinn hafði ekki sinnt neinum af rúmlega 8.000 sjálfvirkum viðvörunum um grunsamleg viðskipti frá ágúst 2017.
Þá voru nýir erlendir viðskiptavinir hvorki skoðaðir með tilliti til refsiaðgerða né hvort þeir væru pólitískt tengdir aðilar (PEP).
Þessi kerfisbundna vanræksla, ásamt stjórnunarleysi, leiddi til þess að danska fjármálaeftirlitið tók yfir bankann í september 2018.
Risasekt í ársbyrjun
Í janúar 2025 var bankanum gert að greiða sekt upp á 794 milljónir danskra króna, sem samsvarar 25% af grunsamlegum viðskiptum á tímabilinu.
Jafnframt er verið að rannsaka aðra stjórnarmenn sem komu að rekstri bankans á brotatímabilinu.
Einn þeirra hefur verið ákærður og er krafist fangelsisrefsingar. Sá neitar sök og nýtur enn nafnleyndar.