Í fyrsta sinn í sögu Danmerkur hefur fyrrverandi bankastjóri hlotið dóm fyrir brot á lögum um peningaþvætti.

Dómurinn féll í Kaup­manna­höfn í dag er Bo Stenga­ard, fyrr­verandi for­stjóri Køben­havns And­els­kasse, játaði brot á lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

Milljarðar runnu í gegnum bankann

Sam­kvæmt rannsóknar­deild dönsku lög­reglunnar, NSK, lét bankinn milli­færslur upp á 3,2 milljarða danskra króna frá áhættusömum er­lendum við­skipta­vinum á tíma­bilinu 2017–2018 fara í gegn án þess að kanna til­efni við­skiptanna eða til­kynna þau til yfir­valda.

Þá hafði bankinn ekki stjórn á því hverjir væru raun­veru­legir eig­endur þriggja stærstu er­lendu við­skipta­vina hans, sem stóðu undir 80–90% af öllum er­lendum fjár­magns­hreyfingum bankans.

Bo Stenga­ard var ekki ákærður fyrir peningaþvættið sjálft heldur fyrir brjóta á reglum um eftir­lit og til­kynninga­skyldu.

Þrátt fyrir að breytingar á lögum í dag heimili allt að tveggja ára fangelsi átti hátt­semi Stenga­ards sér stað fyrir laga­breytinguna þegar refsi­ramminn var aðeins sex mánuðir.

Dómari dæmdi hann í fjögurra mánaða skil­orðs­bundið fangelsi, þar sem tekið var mið af játningu, hreinu saka­ferli og tímanum sem er liðinn frá brotunum.

Al­gjört stjórn­leysi innan bankans

Fyrir dómi lýsti Stenga­ard því að hann hefði ekki áttað sig á um­fangi vandans þegar hann tók við starfi árið 2016.

„Ég hélt að vanda­málin væru bundin við útlána­deildina, en þau voru alls staðar. Þetta var ein stór óreiðu­verk­smiðja.“

Þrátt fyrir þessa lýsingu tók hann af­dráttar­lausa ábyrgð á brotum sínum:

„Ef maður hefur gert eitt­hvað sem maður átti ekki að gera, eða látið undir höfuð leggjast að grípa til að­gerða, þá ber að axla ábyrgð. Sama hversu óþægi­legt það kann að vera.“

Dómurinn markar tíma­mót

Linda Niel­sen, lagapró­fessor við Háskólann í Kaup­manna­höfn og fyrr­verandi for­maður starfs­hóps fjár­mála­geirans um baráttu gegn peningaþvætti, lýsti dómnum sem tíma­mótum.

„Við höfum áður séð ákærur á hendur stjórn­endum í bönkum, en þetta er í fyrsta skipti sem ein­hver er dæmdur fyrir brot á peningaþvættislögum.“

Hingað til hafa máls­með­ferðir vegna peningaþvættis aðal­lega beinst að lögaðilum en ekki ein­stak­lingum.

Þannig fékk Danske Bank áður 15 milljarða króna sekt, án þess að stjórn­endur væru sak­felldir.

Al­var­leg kerfis­bundin van­ræksla

Út­tekt KPMG árið 2018 leiddi í ljós að bankinn hafði ekki sinnt neinum af rúm­lega 8.000 sjálf­virkum viðvörunum um grun­sam­leg við­skipti frá ágúst 2017.

Þá voru nýir er­lendir við­skipta­vinir hvorki skoðaðir með til­liti til refsiað­gerða né hvort þeir væru pólitískt tengdir aðilar (PEP).

Þessi kerfis­bundna van­ræksla, ásamt stjórnunar­leysi, leiddi til þess að danska fjár­mála­eftir­litið tók yfir bankann í septem­ber 2018.

Risa­sekt í árs­byrjun

Í janúar 2025 var bankanum gert að greiða sekt upp á 794 milljónir danskra króna, sem sam­svarar 25% af grun­sam­legum við­skiptum á tíma­bilinu.

Jafn­framt er verið að rann­saka aðra stjórnar­menn sem komu að rekstri bankans á brotatíma­bilinu.

Einn þeirra hefur verið ákærður og er krafist fangelsis­refsingar. Sá neitar sök og nýtur enn nafn­leyndar.