Eigendur Saxo Bank hafa hafið söluferli á danska fjárfestingarbankanum. Greint var frá þessu í tilkynningu í dag en orðrómur um mögulega sölu bankans hefur verið á kreiki í nokkurn tíma, að því er segir í frétt danska viðskiptamiðilsins Børsen. Bankinn var metinn á ríflega 230 milljarða íslenskra króna í vor.

Fjárfestingarbankinn og hluthafar hans hafa ráðið Goldman Sachs sem fjárhagslegan ráðgjafa til að aðstoða sig í gegnum söluferlið. Ekki er gefið upp hvort horft sé til sölu á öllu hlutafé eða minni hlutar í bankanum.

Kínverskur bílaframleiðandi vill líklega út

Kínverski bílaframleiðandinn Geely á 49,9% hlut í Saxo Bank, Kim Fornais, forstjóri og stofnandi Saxo, á 28,1% hlut, og finnska eignastýringafyrirtækið Mandatum á 19,8% hlut.

Mandatum tilheyrði áður Sampo-tryggingasamstæðunni en var nýlega aðskilið frá síðarnefndu og skráð á finnskan hlutabréfamarkað. Samhliða því keypti Mandatum fimmtungshluti í Saxo Bank af Sampo í maí síðastliðnum fyrir 302 milljónir evra, eða sem samsvarar tæplega 45 milljörðum íslenskra króna. Virði hlutafjár Saxo Bank var því metið á tæplega 230 milljarða íslenskra króna í viðskiptunum.

Höfuðstöðvar Saxo Bank í Hellerup-hverfinu í Kaupmannahöfn.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viðskiptamiðillinn Inside Business greindi frá því í desember síðastliðnum að undirbúningur væri hafinn að því að finna fjárfesta til að kaupa helmingshlut Geely í Saxo Bank til að liðka fyrir áformum fjárfestingarbankans að fara á markað.

Kínverski bílaframleiðandinn yrði sennilega að losa um eignarhald sitt í fjárfestingarbankanum áður en til skráningar kæmi samkvæmt umfjölluninni.