Eins og fram hefur komið í morgun stendur til að íslenska ríkið fá allt að fjögurra milljóna evru lán frá yfirvöldum í Rússlandi en fréttir af því eru þó enn óljósar.
Í viðtali við Bloomberg fréttaveituna í dag segir Davíð Oddsson að viðræður við Rússana væru enn í gangi.
Seðlabanki Íslands sendi engu að síður frá sér tilkynningu snemma í morgun þar sem greint var frá því að Rússland hefði veitt Íslandi lánafyrirgreiðslu að upphæð 4 milljarðar evra til að efla gjaldeyrisforða landsins.
Í viðtali við Bloomberg segir Davíð Oddsson að í tilkynning um lánagreiðslu við Rússland hafi verið kveðið of sterkt að orði.
„Það er okkur að kenna,“ segir Davíð í samtali við Bloomberg en bætir við; „öll aðstoð frá Rússlandi er vel þegin.“
Þá kom fram að sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, hefði tilkynnt Davíð Oddssyni þetta í morgun.
Síðar í morgun sendi Seðlabankinn frá sér aðra tilkynningu þar sem áréttað var að viðræður væru enn í gangi.
Í viðtali við Bloomberg segir Alexei Kudrin, fjármálaráðherra Rússlands að þeir hafi fengið beiðni frá íslenskum stjórnvöldum og að viðbrögð Rússa væru „jákvæð.“
Þá hefur Bloomberg eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra að hann sé mjög „vonsvikinn“ með það að ekki hafi tekist að tryggja sér stuðning vinaþjóða án þess þó að nefna hvaða þjóðir hann ætti þar við.
Sjá fréttir Bloomberg: