Davíð Helgason, meðstofnandi Unity, tók þátt í 2,7 milljóna dala eða um 350 milljóna króna fjármögnunarlotu danska sprotafyrirtækisins Boxhub sem stefnir að því að verða leiðandi stafrænt markaðstorg fyrir gáma.
Boxhub sagði í tilkynningu sem send var út í síðustu viku að fjármögnunin muni styðja við vöxt á Bandaríkjamarkaði en félagið hyggst einnig setja aukinn kraft í vöruþróun. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins er Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) og General Electric. Boxhub var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2017 en er nú með höfuðstöðvar í kanadísku borginni Toronto.
Auk Davíðs hafa Niklas Östberg, stofnandi og forstjóri heimsendingarþjónustunnar Delivery Hero, og Conrad Whelan, fyrsti verkfræðingur farveitunnar Uber, fjárfest í Boxhub.