Davíð Helgason, einn stofnanda og eigandi ríflega 4% eignarhlutar í tæknifyrirtækinu Unity, hefur keypt ríflega 600 fermetra glæsihúsnæði á Hrólfskálavör á Seltjarnarnesi sem áður var í eigu Skúla Mogensen á ríflega hálfan milljarð króna að því er Fréttablaðið greinir frá.
Um miðjan september eignaðist Arion banki húsið sem Skúli hafði veðsett fyrir tveimur árum, á sem þá nam 358 milljónir króna, þegar hann reyndi að halda flugfélagi sínu, Wow air á floti.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok sama mánaðar þá nærri tvöfaldaðist eignarhlutur Davíðs á fyrstu dögum eftir skráningu Unity á markað en hann á um 10,4 milljón hluta í félaginu.
- Sjá einnig: Tap Unity eykst sem og tekjur
Upphaflegt útboðsgengi hafði verði á bilinu 34 til 42 dalir, en þegar þetta er skrifað er gengi bréfanna á 147,23 Bandaríkjadali, svo eignarhlutur Davíðs er að andvirði um 1,5 milljarða dala, eða sem samsvarar um 202,4 milljarða íslenskra króna.
Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir rúmu ári að sett hafði verið upp sérstök sölusíða fyrir hús Skúla, en henni hefur nú verið lokað. Þá var beðið um 700 milljónir króna fyrir húsnæðið sem eftir stækkun Skúla um 35 fermetra er með fimm baðherbergjum, þremur svefnherbergjum, líkamsræktarsal, tveim heitum pottum, kvikmyndasal, tveimur svölum, skrifstofu, fjölskylduherbergi, þvottaherbergi og fleira.