Davíð Helgason, einn stofnenda Unity Software, stofnaði félagið Foobar Technologies ehf. árið 2021 og hóf það starfsemi á seinni hluta þess árs. Tilgangur Foobar Technologies er að fjárfesta í tæknisprotafyrirtækjum.

Eignir félagsins námu 9,5 milljörðum króna í árslok 2021, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Þar af voru eignarhlutir í erlendum félögum, sem færðir eru á kostnaðarverði, 7,6 milljarðar króna.

Davíð hefur fjárfest í yfir 100 sprotafyrirtækjum og öðrum nýsköpunarverkefnum. Þar á meðal eru nokkur fyrirtæki sem Íslendingar stýra á borð við Garden Technologies, Lockwood Publishing, Fractal 5, Klang Games, Genki Instruments og VitroLabs, sem leitt er af bróður hans, Ingvari Helgasyni.

Davíð ræddi við Viðskiptablaðið árið 2018 um fjárfestingar sínar í sprotafyrirtækjum. Hann sagði allar sínar fjárfestingar vera í einhvers konar tækni enda skilji hann slíka fjárfestingarkosti best.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.