Davíð Helgason, einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software, seldi hlutabréf í félaginu fyrir tæplega 5,2 milljónir dala, eða sem nemur tæplega 720 milljónum króna, í síðustu viku.
Þetta er önnur söluumferð Davíðs á hlutabréfum í Unity í ár en hann seldi í félaginu fyrir rúmlega 700 milljónir í september síðastliðnum. Hann hefur því samtals selt hlutabréf í Unity fyrir meira en 1,4 milljarða króna í ár.
Meðalgengi í viðskiptunum, sem fóru fram dagana 10. og 11. desember, var 26,88 dalir á hlut. Salan kemur í kjölfar ríflega 20% hækkunar á gengi Unity frá byrjun nóvembermánaðar.
Með ofangreindri sölu er heildarsöluandvirði Davíðs í Unity frá ársbyrjun 2021 komið upp í 183,6 milljónir dala samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Það samsvarar um 25,4 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar.
Davíð á nú um 8 milljónir hluta, eða tæplega 2,0% eignarhlut, í Unity. Eignarhlutur hans er tæplega 202 milljónir dala að markaðsvirði, eða sem nemur hátt í 28 milljörðum króna, miðað við dagslokagengi Unity á mánudaginn.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.