Davíð Helgason seldi hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu Unity Software fyrir 16,2 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur yfir 2,2 milljörðum króna, á mánudaginn. Gengið í viðskiptunum var um 25,2 dalir á hlut.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC).

Davíð, sem er meðstofnandi og fyrrum forstjóri Unity, hafði fram að þessu selt hlutabréf í fyrirtækinu fyrir um 2,2 milljónir dala í ár eða um 300 milljónir króna.

Með framangreindri sölu mun heildar söluandvirði Davíðs í Unity á síðustu þremur árum fara upp í 173 milljónir dala samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Það samsvarar um 24 milljörðum króna miðað við gengi dagsins.

Davíð á nú um 8,45 milljónir hluta, eða um 2,2% eignarhlut, í hugbúnaðarfyrirtækinu. Eignarhlutur hans er um 222 milljónir dala að markaðsvirði eða hátt í 31 milljarður króna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.