Netgengið ehf., sem rekur markaðstorgið aha.is, stendur í ágreiningi við Samkaup, sem rekur meðal annars verslanir Nettó, en samkvæmt ársuppgjöri Netgengisins er deilan komin fyrir dómstóla.
Netgengið heldur því fram í ársuppgjöri að ágreiningurinn sé vegna tafa á sendingum sem hafa valdið félaginu og systurfélagi þess, Útréttum ehf. verulegu tjóni.
„Það er mat stjórnenda Netgengisins ehf. að krafa vegna þessa fáist greidd þar sem samningsákvæði milli félaganna eru skýr um að sá sem veldur töfum skuli bera kostnað af þeim,“ segir í ársuppgjöri.
Í ársreikningi segir að Netgengið hafi vegna þessa þurft að fjármagna rekstur Útrétta sem sér um útkeyrslur á sendingum fyrir aha.is. Netgengið býst við því að uppgjör milli félaganna tveggja verði gert þegar niðurstaða dómstóla liggur fyrir.
Hvorki Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa né Marón Kristófersson forstjóri Aha.is vildu tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ganga þó kröfur á báða bóga sem verða leystar fyrir dómstólum í vetur.
Viðskiptasamband Aha.is og Nettó hófst í september 2017 en þá var það kynnt í fjölmiðlum sem tímamót í íslenskri verslunarsögu er Nettó varð fyrsta lágvöruverðsverslunin til að bjóða upp á netverslun.
Netverslun Nettó opnaði þann 6. september, klukkan 10:00 inni á Aha.is.
Viðskiptavinum Nettó gafst kostur á að gera öll sín matarinnkaup á netinu og annaðhvort sótt þær án nokkurs aukakostnaðar eða fengið vörurnar sendar heim gegn vægu sendingargjaldi.
Á þeim tíma er samstarfið hófst voru yfir 100 verslanir og veitingastaðir sem seldu vörur inn á aha.is en Nettó varð engu að síður stærsti seljandinn í þeim hópi.
Fimm árum síðar opnaði Nettó eigin netverslun sem var tengd við Samkaupa-appið.
„Við höfum átt í farsælu samstarfi með aha.is en við höfum fulla trú á að netverslun verði hluti af okkar kjarnastarfsemi á næstu árum samhliða því sem hlutdeild hennar á matvörumarkaðnum eykst,“ var haft eftir Heiðari Róbert Birnusyni, rekstrarstjóra Nettó, í september 2022.