Net­gengið ehf., sem rekur markað­s­torgið aha.is, stendur í ágreiningi við Sam­kaup, sem rekur meðal annars verslanir Nettó, en sam­kvæmt árs­upp­gjöri Net­gengisins er deilan komin fyrir dómstóla.

Net­gengið heldur því fram í árs­upp­gjöri að ágreiningurinn sé vegna tafa á sendingum sem hafa valdið félaginu og systur­félagi þess, Útréttum ehf. veru­legu tjóni.

„Það er mat stjórn­enda Net­gengisins ehf. að krafa vegna þessa fáist greidd þar sem samningsákvæði milli félaganna eru skýr um að sá sem veldur töfum skuli bera kostnað af þeim,“ segir í árs­upp­gjöri.

Í árs­reikningi segir að Net­gengið hafi vegna þessa þurft að fjár­magna rekstur Útrétta sem sér um út­keyrslur á sendingum fyrir aha.is. Net­gengið býst við því að upp­gjör milli félaganna tveggja verði gert þegar niður­staða dómstóla liggur fyrir.

Hvorki Gunnar Egill Sigurðs­son for­stjóri Sam­kaupa né Marón Kristó­fers­son for­stjóri Aha.is vildu tjá sig um málið þegar Við­skipta­blaðið hafði sam­band.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins ganga þó kröfur á báða bóga sem verða leystar fyrir dómstólum í vetur.

Við­skipta­sam­band Aha.is og Nettó hófst í septem­ber 2017 en þá var það kynnt í fjölmiðlum sem tíma­mót í ís­lenskri verslunar­sögu er Nettó varð fyrsta lág­vöru­verðs­verslunin til að bjóða upp á net­verslun.

Net­verslun Nettó opnaði þann 6. septem­ber, klukkan 10:00 inni á Aha.is.

Við­skipta­vinum Nettó gafst kostur á að gera öll sín matar­inn­kaup á netinu og annaðhvort sótt þær án nokkurs auka­kostnaðar eða fengið vörurnar sendar heim gegn vægu sendingar­gjaldi.

Á þeim tíma er sam­starfið hófst voru yfir 100 verslanir og veitingastaðir sem seldu vörur inn á aha.is en Nettó varð engu að síður stærsti seljandinn í þeim hópi.

Fimm árum síðar opnaði Nettó eigin net­verslun sem var tengd við Sam­kaupa-appið.

„Við höfum átt í farsælu sam­starfi með aha.is en við höfum fulla trú á að net­verslun verði hluti af okkar kjarna­starf­semi á næstu árum sam­hliða því sem hlut­deild hennar á mat­vöru­markaðnum eykst,“ var haft eftir Heiðari Róbert Birnu­syni, rekstrar­stjóra Nettó, í septem­ber 2022.