Sean Combs, einnig þekktur sem Puff Daddy eða P. Diddy, hefur náð samkomulagi um kaup á viðurkenndum kannabisrekstri í þremur fylkjum í Bandaríkjunum fyrir allt að 185 milljónir dala, eða sem nemur allt að 27 milljörðum króna. Hluti fjárhæðarinnar er háð frammistöðutengdum mælikvörðum.
Hinn 53 ára gamli Combs er að kaupa starfsemina af Cresco Labs og Columbia Care, sem eru tvö af stærstu kannabisfyrirtækjum Bandaríkjanna. Salan er hluti af sátt vegna fyrirhugaðs samruna fyrirtækjanna tveggja.
Samkomulagið felur í sér að nýtt fyrirtæki í eigu Combs mun taka yfir níu verslanir og þrjár framleiðslustöðvar í New York, Massachusetts and Illinois.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að ef eftirlitsaðilar samþykki viðskiptin verði um að ræða stærsta kannabisfyrirtæki með tilskilið starfsleyfi í eigu blökkumanns. Combs segir að hann vilji nýta reksturinn sem vettvang til að auka þátttöku blökkufólks í kannabisiðnaðinum.
Bandaríski markaðurinn með kannabis er orðinn 27 milljarðar dala að stærð, en aðeins eru 26 ár frá því að Kalifornía lögleiddi kannabis í lækningaskyni. Áætlað er að hann vaxi hratt næstu árin og að árleg kannabissala í Bandaríkjunum nái 42 milljörðum dala árið 2026, samkvæmt gagnaþjónustufyrirtækinu BDSA.