Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tjáð sig um stuðning þingmanna við formannsframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins en ljóst er að meirihluti þingflokksins styður við bakið á Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Alltaf jafn leiðinlegt að vera minnt á hvað við erum orðin fá í þingflokknum..“ skrifar Diljá í færslu á Facebook.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að meirihluti 17 manna þingflokks Sjálfstæðisflokksins muni styðja Bjarna á landsfundinum um næstu helgi. Allir níu þingmennirnir sem gáfu upp afstöðu sína sögðust hliðholl Bjarna.

Í fréttinni kom fram að Diljá Mist, sem hefur átt í nánu samstarfi við Guðlaug Þór Þórðarson, hafi neitað að gefa upp afstöðu sína. Hún var þó á stuðningsmannafundi Guðlaugs í Valhöll í gær og almennt er talið víst að hún styðji Guðlaug.

„Ég hlakka annars til landsfundar [þ]ar sem almennir flokksmenn leggja kjörnum fulltrúum línuna en ekki öfugt,“ skrifar Diljá.

Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tilkynnti á opnum fundi í gær að hann myndi gefa kost á sér til formanns Sjálfstæðisflokksins. Meðal ástæðna sem hann hefur gefið vegna framboðs síns er óánægja með fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Birgir Ármannsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segjast öll ætla að styðja við Bjarna.

Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Haraldur Benediktsson og Vilhjálmur Árnason hafa ekki gefið upp afstöðu sína varðandi formannskjörið.