Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, varar við því í viðtali við Financial Times að tollastefna Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, geti grafið undan trúverðugleika Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum.
Hann segir viðskiptastríð og háa tolla ógna forystu landsins í efnahagsmálum og veikja traust annarra þjóða til Bandaríkjanna sem öruggs viðskiptaaðila.
„Að hluta til grefur þessi óvissa undan trausti,“ segir Dimon. „Þú munt lesa um þetta án afláts þangað til þetta viðskiptastríð gengur vonandi til baka og þá getur fólk sagt: Ég get treyst Bandaríkjunum.“
Dimon hvetur Bandaríkin eindregið til þess að eiga beint samtal við Kína í viðtalinu og segir að hann telji að engin raunveruleg samskipti séu að eiga sér stað. „ Það þarf ekki að bíða í heilt ár. Það gæti byrjað á morgun,“ segir hann.
Viðvörun Dimons kemur í kjölfar „frelsisdags“ Trumps þann 2. apríl þar sem kynntir voru víðtækir „gagnkvæmir“ tollar á innflutning frá fjölmörgum löndum.
Þessi yfirlýsing kveikti nýtt viðskiptastríð og hefur valdið verulegum óstöðugleika á fjármálamörkuðum.
Áhyggjur af áhrifum á markaði og alþjóðlegt kerfi
Fjárfestar seldu ríkisskuldabréf í miklum mæli eftir tilkynninguna og ávöxtun 10 ára ríkisskuldabréfa hækkaði hraðast í áratugi.
Dimon segir markaðshreyfingarnar hafa verið „óreglulegar að því leyti að þetta var mjög hröð hreyfing“, þó að flestir markaðir hafi haldið velli. Hann viðurkennir þó að „markaðirnir eru mjög sveiflukenndir og það hræðir fólk“.
„Þegar þeir tilkynntu frelsisdags-tollana voru þeir verulega frábrugðnir væntingum,“ segir Dimon. „Það kom sem áfall fyrir kerfið – það alþjóðlega, ekki bara í Bandaríkjunum.“Bandalag og markviss stefna mikilvæg
Dimon telur mikilvægt að Bandaríkin setji sér skýr markmið í tollamálum og ræði þau með bandalagsríkjum. „Við eigum að vera raunsæ um hvað við viljum ná fram.“ Hann leggur áherslu á að Bandaríkin eigi að byggja sterkt efnahagssamband við Evrópu, Bretland, Japan, Kóreu, Ástralíu og Filippseyjar.
Þrátt fyrir að hafa gagnrýnt ríkisstjórnina að hluta segir Dimon að hann hafi trú á fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent.
„Ég vona það. Ég þekki hann aðeins. Hann er fullorðinn maður. Ég er ekki sammála öllu sem ríkisstjórnin er að gera, en ég held að hann sé rétti maðurinn til að semja um þessa viðskiptasamninga.“
Dimon með fjölmiðladrauma
Dimon ræðir einnig framtíð sína og arftaka í JPMorgan. Hann telur að næsti forstjóri þurfi að hafa hugrekki, forvitni, seiglu, hjarta og hæfileika. Nokkrir stjórnendur, þar á meðal Marianne Lake, Troy Rohrbaugh og Doug Petno, teljast líklegir arftakar.
Hann staðfestir að hann hafi aldrei í alvöru hugleitt forsetaframboð, þrátt fyrir vangaveltur í gegnum tíðina: „Ég spurði einu sinni einn mann hvað þetta tæki og áttaði mig strax á því að það væri ekki fyrir mig.“
Að lokum gefur Dimon í skyn að hann kunni að færa sig yfir í fjölmiðlaheiminum eftir að hann hættir sem forstjóri.
„Það er eitthvað fjölmiðlatengt sem mig langar að gera. Kannski verða keppinautur eða stuðningsmaður við Financial Times,” sagði Dimon léttur áður en hann ítrekaði að hann væri ekki að fara tilkynna neitt slíkt að svo stöddu.