Fjárfestingarbankinn JPMorgan Chase og forstjóri hans, Jamie Dimon, leiða nú viðræður við forstjóra annarra stórra bandarískra banka um nýjar aðgerðir til að aðstoða First Republic Bank, sem glímir nú við verulegar úttektir. Wall Street Journal greinir frá.

Hlutabréfaverð First Republic hefur fallið um þriðjung það sem af er degi og um meira en 80% frá áramótum. Markaðsvirði bankans nemur undir 3 milljörðum dala.

Fjárfestar og viðskiptavinir byrjuðu að fylgjast grannt með stöðu First Republic í kjölfar falls Signature Valley Bank (SVB) og Signature Bank fyrr í mánuðinum. Samkvæmt heimildum WSJ hafa viðskiptavinir First Republic tekið 70 milljarða dala út af reikningum sínum hjá First Republic frá því að SVB féll.

Ellefu stórir bandarískir bankar tilkynntu í síðustu viku um að þeir myndu leggja inn 30 milljarða dala hjá First Republic. JPMorgan Chase, Citigroup, Bank of America og Wells Fargo samþykktu að leggja inn 5 milljarða dala hver. Þá leggja Morgan Stanley og Goldman Sachs inn 2,5 milljarða dala hvor.

Heimildir WSJ herma að bankarnir íhugi að umbreyta 30 milljarða innstæðunum að hluta eða í heild í hlutafjáraukningu. Jafnframt er rætt um sölu eða hlutafjáraukningu frá utanaðkomandi aðilum.

Dimon og aðrir forstjórar stóru bankanna reyna nú að viðhalda trausti á bankakerfinu sem horfir nú fram á sínu verstu krísu í 15 ár.