Jamie Dimon forstjóri JPMorgan Chase, stærstu bankasamstæðu veraldarinnar, líkti þeim níu þúsund milljörðum dala sem ríki heimsins létu til fyrirtækja og heimila fá í Covid-faraldrinum við heróín á ráðstefnu í Bretlandi í gær.
Hann varaði einnig við því að heimsbyggðin væri á hættulegum stað um þessar mundir en skuldasöfnun og peningaprentun væri „hættulegur kokteill“ að mati Dimon.
Bandaríska ríkið prentaði fjögur þúsund milljarða dali í faraldrinum og fór um eitt þúsund milljarðar í stuðningsgreiðslur til heimilanna. „Þessir peningar eru eins og heróín,“ sagði Dimon en The Telegraph greinir frá.
„Þegar þú lætur fimm þúsund milljarða dali í hendur neytenda, má hugsa það eins og vera með fíkniefni í blóðinu. Auðvitað líður þér frekar vel. Auðvitað er hlutabréfamarkaðurinn á uppleið og hagnaður fyrirtækja að aukast,“ sagði Dimon.
Þrálát verðbólga á meðan prentun heldur áfram
Mun þetta vera í annað sinn á skömmum tíma sem bankastjórinn segir viðvörunarbjöllur hringja en hann sagði nýverið að núna væri „einn hættulegasti tími sem heimurinn hefur séð í áratugi.“
Dimon á von á því að hagnaður fyrirtækja muni dragast saman til muna á næstunni á meðan efnahagir heimsins reyna að ná tökum á lífi án ríkisstyrkja og ódýrs fjármagns.
Þá býst hann einnig við því að verðbólga verði þrálátari en margir halda, aðallega vegna þess að ríkisstjórnir munu halda áfram að eyða of miklum pening.