Jamie Dimon, for­stjóri JP­MorganChase, hefur ákveðið að fara með stærsta banka Bandaríkjanna í „ævintýri“ að sögn The Wall Street Journal.

Dimon, sem hefur verið for­stjóri bankans í næstum tvo ára­tugi, hefur gefið það út að starfs­lok hans séu handa við hornið.

Það er þó ekki komið að starfs­lokum hans enn og hefur hann ákveðið að sækja fram í einka­bankaþjónustu í Evrópu undir vöru­merkjum Chase.

Að sögn WSJ sér Dimon tækifæri í Þýskalandi en þar búa um 80 milljónir manns og Þjóðverjar eiga mikið sparifé. Samhliða því hefur einkabankaþjónusta verið óarðbær árum saman í Þýskalandi.

Langtíma­mark­miðið er að sækja fram í öllum helstu hag­kerfum Evrópu og skapa nýjan arðbæran tekju­straum fyrir bankann.

Einkabankaþjónusta JP­Morgan hefur þegar fót­festu í Bret­landi, þar sem Chase hóf starf­semi árið 2021.

JP­MorganChase er nú þegar einn af stærstu bönkum Þýska­lands hvað varðar eignir, lán­veitingar til stór­fyrir­tækja og verðbréfa­við­skipti en bankinn færði fjár­festingar­banka­starf­semi sína frá Bret­landi til Frankfurt eftir Brexit.

Dimon var til að mynda fjar­verandi á upp­gjörs­fundi bankans fyrir annan árs­fjórðung í fyrra til þess að taka þátt í viðburði í til­efni af 100 ára sögu bankans í Þýska­landi.

Dimon hefur þó forðast það árum saman að keppa við minni banka í einka­bankaþjónustu á „þeirra heima­velli.“

Tækninýjungar og netbankaþjónusta sem eyðir þörfinni fyrir útibú er sögð ástæða þess að Dimon telur arðbært að ráðast í þessa vegferð nú.

Bankinn mun byrja að sækjast eftir því að laða til sín viðskiptavini í snjallsímaforrit sitt fyrir lok þessa árs.

Að sögn WSJ gæti það þó verið hægara sagt en gert að opna stafrænan banka í Þýska­landi en sumir stjórn­endur Chase eru efins um verk­efnið sem verður kostnaðar­samt til að byrja með, þó að það njóti stuðnings Dimon og hægri hands hans, fram­kvæmda­stjóra rekstrar­sviðs Daniel Pin­to.

Dimon sagði í maí í fyrra að hann muni lík­legast fara á eftir­laun á næstu árum en mun það vera í fyrsta sinn sem hann opnaði á mögu­leikann.

Síðastliðin ár hefur Dimon ítrekað sagt „fimm ár í viðbót“ þegar hann hefur verið spurður um hvenær hann ætli á eftir­laun.

„Tímalínan er ekki fimm ár lengur,“ sagði Dimon á fjár­festa­kynningu í fyrra.

Árið 2021 ákvað stjórn bankans að verð­launa Dimon með veg­legum bónus­greiðslum ef hann myndi ekki fara á eftir­laun fyrr en 2026.