Jamie Dimon, forstjóri JPMorganChase, hefur ákveðið að fara með stærsta banka Bandaríkjanna í „ævintýri“ að sögn The Wall Street Journal.
Dimon, sem hefur verið forstjóri bankans í næstum tvo áratugi, hefur gefið það út að starfslok hans séu handa við hornið.
Það er þó ekki komið að starfslokum hans enn og hefur hann ákveðið að sækja fram í einkabankaþjónustu í Evrópu undir vörumerkjum Chase.
Að sögn WSJ sér Dimon tækifæri í Þýskalandi en þar búa um 80 milljónir manns og Þjóðverjar eiga mikið sparifé. Samhliða því hefur einkabankaþjónusta verið óarðbær árum saman í Þýskalandi.
Langtímamarkmiðið er að sækja fram í öllum helstu hagkerfum Evrópu og skapa nýjan arðbæran tekjustraum fyrir bankann.
Einkabankaþjónusta JPMorgan hefur þegar fótfestu í Bretlandi, þar sem Chase hóf starfsemi árið 2021.
JPMorganChase er nú þegar einn af stærstu bönkum Þýskalands hvað varðar eignir, lánveitingar til stórfyrirtækja og verðbréfaviðskipti en bankinn færði fjárfestingarbankastarfsemi sína frá Bretlandi til Frankfurt eftir Brexit.
Dimon var til að mynda fjarverandi á uppgjörsfundi bankans fyrir annan ársfjórðung í fyrra til þess að taka þátt í viðburði í tilefni af 100 ára sögu bankans í Þýskalandi.
Dimon hefur þó forðast það árum saman að keppa við minni banka í einkabankaþjónustu á „þeirra heimavelli.“
Tækninýjungar og netbankaþjónusta sem eyðir þörfinni fyrir útibú er sögð ástæða þess að Dimon telur arðbært að ráðast í þessa vegferð nú.
Bankinn mun byrja að sækjast eftir því að laða til sín viðskiptavini í snjallsímaforrit sitt fyrir lok þessa árs.
Að sögn WSJ gæti það þó verið hægara sagt en gert að opna stafrænan banka í Þýskalandi en sumir stjórnendur Chase eru efins um verkefnið sem verður kostnaðarsamt til að byrja með, þó að það njóti stuðnings Dimon og hægri hands hans, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Daniel Pinto.
Dimon sagði í maí í fyrra að hann muni líklegast fara á eftirlaun á næstu árum en mun það vera í fyrsta sinn sem hann opnaði á möguleikann.
Síðastliðin ár hefur Dimon ítrekað sagt „fimm ár í viðbót“ þegar hann hefur verið spurður um hvenær hann ætli á eftirlaun.
„Tímalínan er ekki fimm ár lengur,“ sagði Dimon á fjárfestakynningu í fyrra.
Árið 2021 ákvað stjórn bankans að verðlauna Dimon með veglegum bónusgreiðslum ef hann myndi ekki fara á eftirlaun fyrr en 2026.