Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, hefur á ný hafið beint samtal við Donald Trump Bandaríkjaforseta, eftir afar stirð samskipti þeirra á milli síðustu ár.
Samkvæmt heimildum The Wall Street Journal hafa tveir fundir farið fram á síðustu tveimur mánuðum á milli Bandaríkjaforseta og valdamesta bankastjóra landsins.
Dimon og Trump eru sagðir hafa rætt um efnahagsmál, viðskiptastefnu, reglubreytingar og vaxtastig.
Á síðasta fundi þeirra var fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, og viðskiptaráðherra, Howard Lutnick, einnig viðstaddir.
Tilefni fundarins var meðal annars nýgerður fríverslunarsamningur Bandaríkjanna við Japan, sem Dimon hrósaði forsetanum fyrir.
Á fundinum kom jafnframt til umræðu skortur á hagkvæmu húsnæði í Bandaríkjunum og áhrif íþyngjandi regluverks sem komið var í kjölfar fjármálakreppunnar 2008.
Þá var sérstaklega fjallað um hvernig slíkar reglur hamli íbúðalánamarkaði og aðgengi almennings að fasteignum.
Dimon var meðal þeirra forstjóra sem sögðu sig úr efnahagsráði forsetans eftir umdeild viðbrögð Trumps við kynþáttamótmælum í Charlottesville árið 2017.
Síðar líkti Dimon ásökunum Trumps um kosningasvik árið 2020 við landráð. Trump svaraði með því að kalla Dimon „verulega ofmetinn“ og sakaði JPMorgan um að mismuna íhaldssömum viðskiptavinum.
Síðustu misseri hafa þó borið með sér breytta tíma. Dimon hefur opinberlega lýst því yfir að það sé hans skylda, sem forstjóra stærsta banka Bandaríkjanna, að eiga samtal við þá sem stýra landinu, óháð flokkspólitík. Hann hefur jafnframt lýst yfir stuðningi við sum tollamál Trumps og lýst yfir þörf á breytingum í innflytjendamálum.
Þegar Trump tilkynnti umfangsmikla tolla í apríl hrukku markaðir til og Dimon lýsti yfir áhyggjum af hugsanlegum efnahagslegum samdrætti ef kæmi til viðskiptastríðs. Í kjölfarið dró forsetinn hluta tollanna til baka og nefndi síðar að sjónarmið Dimons hefðu ráðið þar einhverju um.
Þó að Dimon og Trump séu enn ósammála um ýmis mál er nú ljóst að samtalið er hafið að nýju. Það gæti haft áhrif bæði á stefnumótun í peningamálum og efnahagsráðgjöf á æðstu stöðum í Washington.