Jamie Dimon, for­stjóri JP­Morgan Chase, hefur á ný hafið beint sam­tal við Donald Trump Bandaríkja­for­seta, eftir afar stirð sam­skipti þeirra á milli síðustu ár.

Sam­kvæmt heimildum The Wall Street Journal hafa tveir fundir farið fram á síðustu tveimur mánuðum á milli Bandaríkja­for­seta og valda­mesta banka­stjóra landsins.

Dimon og Trump eru sagðir hafa rætt um efna­hags­mál, við­skipta­stefnu, reglu­breytingar og vaxta­stig.

Á síðasta fundi þeirra var fjár­málaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bes­sent, og við­skiptaráðherra, Howard Lutnick, einnig viðstaddir.

Til­efni fundarins var meðal annars ný­gerður fríverslunar­samningur Bandaríkjanna við Japan, sem Dimon hrósaði for­setanum fyrir.

Á fundinum kom jafn­framt til um­ræðu skortur á hag­kvæmu húsnæði í Bandaríkjunum og áhrif íþyngjandi reglu­verks sem komið var í kjölfar fjár­mála­kreppunnar 2008.

Þá var sér­stak­lega fjallað um hvernig slíkar reglur hamli íbúðalána­markaði og að­gengi al­mennings að fast­eignum.

Dimon var meðal þeirra for­stjóra sem sögðu sig úr efna­hags­ráði for­setans eftir um­deild viðbrögð Trumps við kynþátta­mót­mælum í Char­lottes­vil­le árið 2017.

Síðar líkti Dimon ásökunum Trumps um kosninga­svik árið 2020 við land­ráð. Trump svaraði með því að kalla Dimon „veru­lega of­metinn“ og sakaði JP­Morgan um að mis­muna íhalds­sömum við­skipta­vinum.

Síðustu misseri hafa þó borið með sér breytta tíma. Dimon hefur opin­ber­lega lýst því yfir að það sé hans skylda, sem for­stjóra stærsta banka Bandaríkjanna, að eiga sam­tal við þá sem stýra landinu, óháð flokk­spólitík. Hann hefur jafn­framt lýst yfir stuðningi við sum tollamál Trumps og lýst yfir þörf á breytingum í inn­flytj­enda­málum.

Þegar Trump til­kynnti um­fangs­mikla tolla í apríl hrukku markaðir til og Dimon lýsti yfir áhyggjum af hugsan­legum efna­hags­legum sam­drætti ef kæmi til við­skipta­stríðs. Í kjölfarið dró for­setinn hluta tollanna til baka og nefndi síðar að sjónar­mið Dimons hefðu ráðið þar ein­hverju um.

Þó að Dimon og Trump séu enn ósammála um ýmis mál er nú ljóst að sam­talið er hafið að nýju. Það gæti haft áhrif bæði á stefnumótun í peninga­málum og efna­hags­ráðgjöf á æðstu stöðum í Was­hington.