Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase bankasamstæðunnar, segir alveg líklegt að stýrivextir í Bandaríkjunum verði um 8% á næstu árum þar sem ógurleg ríkisútgjöld og óreiða í stjórnmálum séu að flækja baráttuna við verðbólguna.
„Gríðarleg ríkisútgjöld, billjónirnar (e. trillion) sem þarf á hverju ári fyrir græna efnahaginn, hervæðing heimsins að nýju og endurskipulagning í alþjóðaviðskiptum er allt verðbólguvaldandi,“ segir Dimon í 61 blaðsíðna bréfi til hluthafa bankans.
Dimon sagði seiglu bandarísks efnahags hafa komið sér á óvart en hann var einn af þeim sem hafði miklar áhyggjur af stöðunni í fyrra.
Efasemdir Dimon eru þó hvergi nærri horfnar því hann segir í bréfi sínu að bjartsýni markaðsaðila á fjármálamörkuðum vera á villigötum.
Að mati Dimon eru fjárfestar alltof vongóðir á að seðlabankinn nái svokallaðri mjúkri lendingu, þar sem verðbólga hjaðnar án efnahagssamdráttar.
Hann segir mun ólíklegra að Seðlabankinn nái 2% verðbólgumarkmiði sínu en hreyfingar á skuldabréfamörkuðum benda til.
„Markaðurinn virðist telja svona 70% til 80% líkur á mjúkri lendingu. Ég tel líkurnar mun lægri,“ segir Dimon.
Það er ekkert nýtt að Dimon segi efnahagshorfur neikvæðar en hann hefur alltaf verið þekktur fyrir varfærni sína í starfi. Árið 2022 varaði hann við því að „hvirfilbylur“ væri að fara skella á bandarískt efnahagslíf er vextir byrjuðu að hækka en hann hefur síðan þá dregið örlítið úr dómsdagsspá sinni samkvæmt The Wall Street Journal.
Hann vill þó enn meina áhættan sé til staðar og segir óstöðugleika á mörkuðum enn til staðar. Hann segir bankann vera undirbúa sig undir ýmsar sviðsmyndir þar sem vextir gætu verið lækkaðir niður í 2% eða jafnvel hækkaðir í 8% eða hærra.
Dimon ítrekaði við hluthafa að JPMorgan Chase, sem skilaði 50 milljarða dala hagnaði í fyrra, mun halda áfram að dafna sama hvernig viðrar, sér í lagi víðfeðmi viðskipta þeirra og sterkri áhættustýringu.