Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan, stærsta banka Bandaríkjanna, varaði evrópska leiðtoga í dag við að Evrópa ætti við vandamál að stríða er varðar samkeppnishæfni og sagði álfuna verða undir í samkeppni við Bandaríkin og Kína. Financial Times greinir frá.
„Evrópa hefur á 10-15 árum farið úr því að vera með verga landsframleiðslu sem samsvarar 90% af VLF Bandaríkjanna, í aðeins 65%. Það er ekki gott,“ sagði Dimon á viðburði írska utanríkisráðuneytisins í Dublin,
Sem frægt er birti Evrópusambandið svokallaða Draghi-skýrslu um samkeppnishæfni Evrópu, sem skrifuð var af Mario Draghi, fyrrverandi forseta Seðlabanka Evrópu. Þar sagði hann að helst þurfi að auka fjárfestingu í evrópsku atvinnulífi um 750-800 milljarða evra á ári til að bæta samkeppnishæfni álfunnar.
Dimon, sem hefur verið forstjóri JP Morgan frá árinu 2006, sagði á fundinum í dag að Evrópuþjóðir þurfi að ráðast í umtalsverðar breytingar á hagkerfum sínum til að stuðla að auknum hagvexti.
Andvaraleysi á markaðnum
Hann varaði einnig við því að fjármálamarkaðir væru orðnir of rólegir yfir hótunum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um tollahækkanir. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn er í hæstu hæðum og hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 26% frá lægsta punkti í apríl síðastliðnum, þrátt fyrir hótanir Trumps undanfarna daga.
„Því miður tel ég að það ríki andvaraleysi (e. complacency) á markaðnum,“ sagði Dimon.
Hann sagði Trump hafa tekið skynsamlega ákvörðun með að fresta gildistöku tolla í vor.
„Ég hata að nota orðið „Taco“ [Trump always chickens out] því ég tel að hann hafi gert það rétta í stöðunni að hætta við (e. chicken out).“